FréttirSkrá á póstlista

20.01.2009

Hafrannsóknaskipin fara til loðnuleitar

Á fundi sem útgerðarmenn loðnuskipa héldu með Hafrannsóknarstofnun í gær var ákveðið að næstu skref í loðnuleit á þessum vetri yrðu þau að Árni Friðriksson RE færi sem fyrst austur fyrir land og að Bjarni Sæmundsson RE fari vestur fyrir land um næstu mánaðamót og leiti þar.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarveiðisviðs HB Granda, sem sat fundinn, er hugmyndin sú að Árni Friðriksson RE fari suður fyrir loðnugönguna og taki mælingu norður með Austfjörðum og vestur með Norðausturlandi eða á því svæði sem loðnu verður vart.

,,Það kom fram á fundinum að mæling fiskiskipanna fjögurra, sem tóku þátt í loðnuleitinni á dögunum, hefði í raun verið 214 þúsund tonn og Árna Friðriksson RE hefði náð mælingu upp á um 170 þúsund tonn. Þetta er umtalsvert meira magn en tókst að mæla á Árna Friðrikssyni RE á sömu slóðum og á sama tíma í fyrra en sú mæling var upp á 70 til 80 þúsund tonn,“ segir Vilhjálmur en að hans sögn var einnig greint frá því á fundinum að vel yrði fylgst með íslensku sumargotssíldinni fram yfir hrygningu. Dröfn RE er farin til stofnmælinga og einnig verður fylgst með þróun sýkingarinnar í síldinni sem fyrst varð vart í byrjun desember sl.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir