FréttirSkrá á póstlista

16.01.2009

Haugabræla á kolmunnamiðunum og lítil veiði

Uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú öll í Færeyjum þar sem áhafnir þeirra bíða þess að veður gangi niður á kolmunnamiðunum sunnan við eyjarnar og hægt verði að komast til veiða. Lundey NS er í Fuglafirði með rúmlega 400 tonna afla, Faxi RE er í Klaksvík með rúmlega 100 tonn og þar er einnig Ingunn AK sem enn hefur ekki hafið veiðar.

Stefán Geir Jónsson, fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Lundey NS, sagði í samtali við heimasíðu HB Granda að það hefði brælt á veiðisvæðinu í fyrrakvöld og horfur væru ekki góðar.

,,Við vorum að veiðum á hinu svokallaða gráa svæði á lögsögumörkum Færeyja og Skotlands. Þetta er erfitt veiðisvæði, mikill straumur og sjólag ekki gott,” sagði Stefán Geir en að hans sögn fékkst kolmunnaaflinn í tveimur 19-20 tíma holum á tveimur sólarhringum. Ein sjö til átta önnur íslensk skip voru að veiðum á veiðisvæðinu og fjöldi rússneskra og færeyskra skipa.

,,Veiðin var ekki mikil og kolmunninn er mjög smár. Það var ágæt veiði í síðustu viku en síðan datt hún niður,” sagði Stefán Geir en að hans sögn er nú löndunarbið hjá Havsbrún í Fuglafirði og verður ekki landað úr skipinu fyrr en í fyrsta lagi í kvöld eða á morgun.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir