FréttirSkrá á póstlista

15.01.2009

Miklar vonir bundnar við nýja hrognaþurrkunarvél

Ný vél til þurrkunar á loðnuhrognum fyrir pökkun verður tekin í notkun hjá HB Granda á komandi vertíð. Hrognaþurrkunarvélin er afrakstur þróunarvinnu og samstarfs HB Granda og Skagans hf., sem er framleiðandi vélarinnar.

Fram að þessu hafa loðnuhrognin verið þurrkuð í körum en sú aðferð er mjög kostnaðarsöm og útheimtir mikinn fjölda kara. Einnig fylgir körunum áhætta varðandi ferskleika og gæði afurðarinnar. Þar sem loðnuhrogn eru ein dýrasta, íslenska sjávarafurðin, er mikilvægi vélar sem þessarar umtalsvert. Loðnuhrogna er neytt hrárra og ferskleiki og gæði eru því lykilatriði hvað varðar sölu og markaðssetningu afurðarinnar.

Að sögn Jónmundar Ingólfssonar hjá Skaganum hf. er hrognaþurrkunarvélin nú full þróuð og hefur afurðin verið rannsökuð nákvæmlega af sérfræðingum, bæði á vegum HB Granda hf. og Matís ohf.  Niðurstöður rannsóknanna eru mjög jákvæðar og Jónmundur segir að tilkoma vélarinnar muni hafa í för með sér gríðarlega breytingu til hins betra í hrognavinnslunni.

Afköst hrognaþurrkunarvélarinnar er um 150 tonn af tilbúinni afurð til pökkunar á sólarhring.

,,Auk þess sem vélin bætir gæði hrognanna þá þarf ekki lengur að nota plastkör í hrognavinnslunni.  Ferskleiki hrognanna verður mun meiri en með hefðbundinni þurrkunaraðferð og þar munar alveg heilum sólarhring. Það getur skipt sköpum fyrir vinnslur sem eru fjarri miðunum á þeim tíma sem loðnan hentar best til hrognatöku og nægir í því sambandi að nefna fiskiðjuver HB Granda hf. á Vopnafirði,” segir Jónmundur en hann sagðist vilja nota tækifærið til að þakka starfsmönnum HB Granda, sem unnu hvað mest að þessu mikilvæga þróunarverkefni með Skaganum hf., sérstaklega fyrir frábært samstarf. Þar hefðu farið fremstir í flokki Gísli Sigmarsson hjá HB Granda á Vopnafirði og Gunnar Hermannsson hjá HB Granda á Akranesi.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir