FréttirSkrá á póstlista

07.01.2009

Seldu afla fyrir 42 milljónir króna í Bremerhaven

Í morgun var lokið við að selja afla úr ísfisktogaranum Ásbirni RE á fiskmarkaðnum í Bremerhaven í Þýskalandi. Alls voru seld rúmlega 138 tonn af fiski úr skipinu á þremur dögum og fyrir það magn fengust tæplega 250 þúsund evrur eða tæpar 42 milljónir króna miðað við miðgengi eins og það er skráð hjá Seðlabanka Íslands.

Að sögn Birkis Hrannars Hjálmarssonar, rekstrarstjóra togara HB Granda, var afla skipsins landað í Bremerhaven sl. sunnudag og var sölunni dreift á fyrstu þrjá söludaga vikunnar. Uppistaða aflans, eða um 120 tonn, var karfi og var það Ísey sem sá um sölu aflans ytra.

,,Við erum þokkalega ánægðir með árangurinn og þá ekki síst í ljósi þess að það var töluvert mikið framboð af gámafiski í Bremerhaven nú í byrjun vikunnar. Það var talað um að rúmlega 300 tonn af karfa væru væntanleg í gámum en vera má að hluti þess magns hafi verið sendur til Frakklands,“ segir Birkir en þess má geta að meðalverð á aflanum úr Ásbirni RE var 1,80 evrur fyrir kílóið eða jafnvirði um 300 ísl. kr/kg. Fyrir stærsta karfann (+700 grömm) var meðalverðið 2,62 evrur/kg eða um 438 ísl. kr/kg. Smærri karfinn seldist hins vegar á 1,07 evrur/kg eða um 179 ísl. kr/kg.

Ásbjörn RE lét úr höfn í Bremerhaven sl. mánudagskvöld og ef allt gengur að óskum er skipið væntanlegt til Reykjavíkur í hádeginu nk. laugardag.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir