FréttirSkrá á póstlista

05.01.2009

Bylting í bergmálsmælingum

Tvö skip HB Granda, Faxi RE og Lundey NS, taka nú þátt í loðnuleit sem standa mun yfir næstu daga. Auk þeirra taka hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson RE og Börkur NK þátt í þessu verkefni. Loðnuleitin nú markar ákveðin tímamót því að þessu sinni gefst sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar kostur á að fylgjast jafnóðum með upplýsingum um það sem fiskleitartæki allra fjögurra skipanna nema á meðan leitinni stendur.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, fóru Faxi RE og Lundey NS til loðnuleitarinnar í gær og munu þau leita að loðnu á svæðum norðan og norðvestan við landið. Börkur NK er við loðnuleit austur og norðaustur af landinu og Árni Friðriksson RE mun kanna ástand mála fyrir Suður- og Suðausturlandi. Leitað er á öllu því svæði þar sem vart hefur orðið við loðnu í janúarmánuði mörg undanfarin ár.

Vilhjálmur segir að búið sé að koma fyrir nýjum fjarskiptabúnaði í Faxa RE og Lundey NS og var það gert eftir að síldveiðum lauk nú í nýliðnum desembermánuði.

,,Búnaðurinn verður ekki eingöngu til þess að bylting verður í samskiptum við skipin og áhafnir hafi möguleika á að vera í stöðugu síma- og netsambandi, heldur gerir hann starfsmönnum Hafrannsóknastofnar á Skúlagötu einnig kleift að fylgjast með því sem sést í fiskleitartækjum skipanna á hverjum tíma. Það náðist að kvarða fiskleitartæki Faxa RE og Lundeyjar NS nú um helgina og eru þau nú stillt eins og búnaður hafrannsóknarskipanna. Áður var búið að setja sams konar búnað í Börk NK og kvarða hann,“ segir Vilhjálmur en hann segir að með þessum nýja búnaði verði slík breyting á möguleikum Hafrannsóknastofnunar til bergmálsmælinga að óhætt sé að líkja henni við byltingu. Í stað þess að aðeins sé hægt að byggja magnmat á bergmálsmælingum frá Árna Friðrikssyni RE, sem fer aðeins yfir hluta leitarsvæðisins, verði nú einnig hægt að styðjast við sambærilegar upplýsingar frá hinum skipunum þremur og leitarsvæðinu öllu.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir