FréttirSkrá á póstlista

30.12.2008

Ásbjörn RE á leið í siglingu með afla

Ísfisktogarinn Ásbjörn RE er nú á leið til Þýskalands með fullfermi af fiski, um 150 tonn, sem fyrirhugað er að selja á fiskmarkaðnum í Bremerhaven 5. janúar nk. Að sögn skipstjórans, Ólafs Einarssonar, var mikið haft fyrir aflanum enda var nánast kolvitlaust veður megnið af veiðiferðinni og á aðfangadag var brugðið á það ráð að leita vars undir Hólsbergi í nágrenni Keflavíkur og þar varði áhöfnin aðfangadagskvöldinu.

,,Það er óhætt að segja að veðrið hafi verið slæmt. Við vorum tíu daga í veiðiferðinni og í þrjá daga var ekkert hægt að vera að veiðum. Hina dagana var þokkalegt kropp,“ sagði Ólafur er tíðindamaður heimasíðu HB Granda náði tali af honum. Ásbjörn RE var þá suður af Reykjanesi en skipið lét úr höfn í Reykjavík í morgun eftir að hafa tekið olíu og vistir. Að sögn Ólafs var hann að veiðum í Skerjadýpinu eða á heimaslóðum ísfisktogara HB Granda og uppistaða aflans var góður gullkarfi en einnig voru í lestinni um 20 tonn af ufsa.

Ásbjörn RE var eini togari landsmanna sem var að veiðum um jólin. Segja má að siglingin nú sé nokkuð merkileg því Ásbjörn RE fór síðast utan með afla á árinu 1994 eða fyrir bráðum hálfum öðrum áratug.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir