FréttirSkrá á póstlista

17.12.2008

Fullri vinnu haldið uppi á Vopnafirði

,,Þetta er auðvitað eitthvað sem við þurftum síst á að halda um þessar mundir, sama hvort sem það er fyrirtækið, starfsfólkið eða þjóðarbúið,” segir Magnús Róbertsson vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði en sýkingin í íslenska sumargotssíldarstofninum hefur gjörbreytt öllum áformum um frystingu á síld til manneldis í fiskiðjuverinu á Vopnafirði.

Síld hefur ekki verið fryst á Vopnafirði síðan um síðustu mánaðamót. Markmiðið var að frysta um 6.300 tonn af síldarafurðum hjá fyrirtækinu og halda síldarvinnslunni gangandi fram í janúarmánuð en þegar frystingin var stöðvuð var búið að frysta rúmlega fjórðung þess magns eða um 1.700 tonn. Þótt þetta séu vissulega mikil vonbrigði og að verðmætasköpunin hafi ekki orðið með þeim hætti sem efni stóðu til, þá er fullri atvinnu haldið uppi í fiskiðjuverinu á Vopnafirði. Sú vinna vegur þó hvergi nærri jafn þungt og vaktavinnan í síldarfrystingunni og því er ljóst að fiskvinnslufólkið verður fyrir umtalsverðri tekjuskerðingu vegna þess hve síldarvertíðin varð endaslepp að þessu sinni.

,,Við erum að vinna afskurð af frystitogurunum og eigum birgðir til nokkurra vikna. Þá ættum við að fá meira hráefni nú þegar frystitogararnir koma inn fyrir hátíðarnar,” segir Magnús en þess má geta að afskurðurinn er léttsaltaður og fer aðallega á Spánarmarkað.

Nú bíða menn á Vopnafirði og víðar eftir því að loðnan gefi sig til og Magnús segir að það þýði ekkert annað en að vera bjartsýnn og vonandi verði hægt að hefja frystingu á loðnu fyrir Austur-Evrópumarkaðinn upp úr miðjum janúar.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir