FréttirSkrá á póstlista

15.12.2008

Síldarkvótanum náð

Skip HG Granda hafa náð að veiða kvóta félagsins af íslenskri sumargotssíld á vertíðinni. Lundey NS kom til Akraness í gær með 1.200 tonna afla og þar með var heildaraflinn á vertíðinni kominn í 18.230 tonn.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildastjóra uppsjávarsviðs HB Granda, var búið að veiða  og vinna alls um 5.500 tonn af síld þegar vart varð við sýkinguna í stofninum. Frá þeim tíma hefur öllum síldaraflanum verið landað til bræðslu. Alls var tekið á móti 9.140 tonnum af síld á Vopnafirði og 10.090 tonnum á Akranesi en þar af voru um 1.000 tonn frá öðrum skipum en Ingunni AK, Faxa RE og Lundey NS.

,,Það er ljóst að mun minna er út úr því að hafa að bræða síldina en vinna hana til manneldis og því er tekjuskerðing félagsins veruleg vegna sýkingarinnar. Tekjutapið kemur þó mest við fiskvinnslufólkið á Vopnafirði en allt útlit var á að þar yrði unnin síld í desember og fram eftir janúarmánuði. Við gerðum ráð fyrir að frysta alls 6.300 tonn af samflökum í fiskiðjuverinu á Vopnafirði en niðurstaðan varð hins vegar sú að aðeins voru framleitt 1.700 tonn af frystum afurðum,“ segir Vilhjálmur en að hans sögn hefur það vakið athygli manna hve vel síldin virðist vera haldin þátt fyrir sýkinguna.

,,Síldin er mun feitari en við er að búast á þessum árstíma og hefur fituprósentan í síldinni verið um 18% undanfarið. Miðað við reynslu undanfarinna ára hefðum við frekar átt von á um 12% fituinnihaldi,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Nú tekur við biðtími hjá uppsjávarveiðiskipum HB Granda og næsta verkefni verður væntanlega loðnuveiðar eftir áramótin. Lítt hefur þó orðið vart við loðnu og er ástandið ekki ósvipað og það var á vertíðunum 2005 og 2006.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir