FréttirSkrá á póstlista

08.12.2008

Ingunn AK með rúman milljarð króna í aflaverðmæti

Von er á Ingunni AK til heimahafnar á Akranesi í kvöld en skipið hefur nú lokið veiðum úr íslenska síldarstofninum á þessu ári. Óhætt er að segja að árið hafi reynst áhöfninni og HB Granda gott því afli skipsins á árinu er samtals um 43.300 tonn og aflaverðmætið losar rúman einn milljarð króna.

Þetta kemur fram í upplýsingum frá Vilhjálmi Vilhjálmssyni, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, en að hans sögn var aflaverðmæti Ingunnar AK á árinu alls 1.050.000 milljónir króna. Til samanburðar má nefna að í fyrra var afli skipsins 48.800 tonn og aflaverðmætið þá var 642 milljónir króna.

Af síldveiðunum er það helst að frétta að ekkert hefur fundist af ósýktri síld við landið og því hefur allur aflinn farið í bræðslu.

,,Þegar í ljós kom að sýking var komin í síldina ákváðum við að hætta frystingu á aflanum. Við höfum vonast til að ósýkt síld fyndist en það hefur því miður ekki gerst og svo virðist sem að sýkingin nái til síldar allt í kringum landið,“ segir Vilhjálmur.

Lundey NS kom til Akraness með 1.550 tonna afla sem landað var sl. föstudag og er skipið nú á miðunum. Ingunn AK fór til Vopnafjarðar með tæplega 2.100 tonna afla sem landað var um helgina og þar er nú verið að landa fullfermi úr Faxa RE.

Að sögn Vilhjálms hófst leit að kolmunna í síðustu viku. Jón Kjartansson SU og Huginn VE fóru til kolmunnaleitar í vikunni en sú leit bar engan árangur og kom Jón Kjartansson SU til hafnar í morgun og Huginn VE er á landleið.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir