FréttirSkrá á póstlista

08.12.2008

Góður gangur hjá togurum HB Granda

Aflabrögð hjá togurum HB Granda hafa verið ágæt í haust og í vetur. Að sögn Birkis Hrannars Hjálmarssonar, rekstrarstjóra togaranna, hefur það helst sett strik í reikninginn í útgerðinni að bilun varð í gír Helgu Maríu AK á dögunum og er nú unnið að viðgerð sem og upptekt á aðalvél skipsins.

,,Frystiskipin eru í sínum síðasta túr fyrir jól, utan hvað Helga María AK er í höfn í Reykjavík en við vonumst til að skipið komist til veiða nú um næstu helgi,” segir Birkir sem upplýsir að Höfrungur III AK sé nú á sínum hefðbundnu miðum í desembermánuði, þ.e.a.s. á grálúðuveiðum á Vestfjarðamiðum. Þerney RE, Venus HF og Örfirisey RE hafa hins vegar verið í blönduðum fiski.

,,Haustið hefur gengið vel hjá frystitogurunum og aflavermætið hefur verið  ævintýri líkast. Farið hefur saman þokkalegasta veiði og hátt verð í íslenskum krónum, þó svo að verðið í erlendum gjaldmiðlum hafi gefið eftir,” segir Birkir.

Reiknað er með því að Höfrungur III AK komi til hafnar 22. desember en búist er við því að öll frystiskipin verði komin í höfn fyrir hádegi á Þorláksmessu.

 Fyrirhugað að sigla með afla til Þýskalands

Að sögn Birkis er heldur ekki hægt að kvarta yfir aflabrögðum hjá ísfisktogurunum.

,,Veiðarnar hafa gengið þokkalega. Þó er minna af ufsa en á sama tíma og í fyrra en karfaaflinn hefur verið meiri. Sturlaugur H. Böðvarsson AK er í höfn en fer til veiða í næstu viku. Ottó N. Þorláksson RE á væntanlega eftir að fara í eina til tvær veiðiferðir fyrir jól en úthaldið mun ráðast af aflabrögðum. Skipið fer í slipp fyrir jól og verður þar í nokkra daga. Ásbjörn RE kemur inn til löndunar í dag og fer síðan í eina veiðiferð fyrir jól. Reyndar er áætlað að Ásbjörn RE verði á sjó um jólin og líklega verður siglt með karfa til Bremerhaven þar sem fyrirhugað er að selja aflann á markaði 5. janúar nk.,” segir Birkir en þess má geta að mörg ár eru liðin síðan togarar HB Granda fóru síðast í siglingu með afla. Ásbjörn RE fór reyndar síðast í siglingu árið 1993 þannig að hálfur annar áratugur er liðinn síðan það skip hefur sést í erlendri höfn.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir