FréttirSkrá á póstlista

04.12.2008

Góður túr þrátt fyrir brotinn gír

Frystitogarinn Helga María AK er enn í höfn í Reykjavík en þangað var skipið dregið í síðustu viku eftir að tannhjól í tímagír gaf sig með þeim afleiðingum að gírinn brotnaði. Eiríkur Ragnarsson skipstjóri reiknar með því að skipið komist að nýju til veiða fljótlega í næstu viku.

,,Það var bót í máli að við vorum langt komnir með veiðiferðina og veður var gott þegar þetta kom upp á,” segir Eiríkur en Sturlaugur H. Böðvarsson AK sá um að draga Helgu Maríu AK, sem var stödd úti af Víkurálnum er óhappið varð, til hafnar. Eiríkur segist ágætlega sáttur með árangurinn í veiðiferðinni þótt hún hafi orðið styttri en ráð var fyrir gert.

,,Við vorum úti í 20 daga og vorum með 420 til 430 tonna afla upp úr sjó. Þetta var mest karfi en einnig ufsi og þorskur og um tíu tonn af grálúðu. Aflaverðmætið var um 134 til 135 milljónir króna,” segir Eiríkur.

 Þorskur í ætisleit úti um allt

Skipstjórnum á togurum HB Granda, sem tíðindamaður heimasíðunnar hefur rætt við í haust og í vetur, ber saman um að mikið sé af þorski mjög víða á Vestfjarðamiðum og reyndar víðar á veiðislóðinni. Undir þetta tekur Eiríkur Ragnarsson.

,,Það er mikið af þorski á slóðinni og hann er m.a.s. kominn út á grálúðuslóðina á um 300 til 350 faðma dýpi. Þessi fiskur er í ætisleit og maður vonar bara að hann sé ekki á leiðinni til Grænlands. Þá er þorsk að finna alveg upp í þaragarða þar sem hann virðist aðallega vera að éta smákrabba. Það vantar einfaldlega nægilegt æti fyrir þorskinn og þá einkum og sér í lagi loðnu. Það er alltof of lítið af henni,” segir Eiríkur Ragnarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir