FréttirSkrá á póstlista

01.12.2008

Skagamenn fá aukið magn af síld til bræðslu

Síðustu daga hefur fiskmjölsverksmiðja HB Granda á Akranesi fengið mun meira hráefni til bræðslu en ráð var fyrir gert. Skýringin á þessu er sú að vegna sýkingar í síld, sem veiðst hefur í Breiðafirði, hefur ekki verið hægt að vinna aflann til manneldis og fyrir vikið hefur verksmiðjan á Akranesi fengið hráefni til bræðslu frá vinnsluskipum og sömuleiðis afla frá Ingunni AK sem hefði undir öllum venjulegum kringumstæðum verið unninn til manneldis á Vopnafirði.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildastjóra uppsjávarveiða hjá HB Granda, kom Lundey NS með um 860 tonna afla til Vopnafjarðar sl. föstudag og var lokið við að landa aflanum á laugardag. Síldin fór til vinnslu en um hádegi á laugardag var vinnslunni hætt vegna sýkingar í síldinni. Framan af var um 1-2% síldarflakanna með blóðblettum, sem í ljós kom að eru vegna sýkingar, en um hádegisbilið fóru einnig að sjást einstaka kýli í síldinni og því var tekin ákvörðun um að hætta vinnslu og setja það sem þá var eftir í bræðslu.

Ingunn AK fékk um 800 tonn af síld á Breiðafirði í gær. Ákveðið var að landa aflanum til bræðslu á Akranesi. Lundey NS er að síldveiðum við Reykjanes en Faxi RE er í höfn í Reykjavík.

Að sögn Guðmundar Hannessonar, verkstjóra hjá fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi, var lokið við að landa úr Ingunni AK nú laust fyrir hádegið og var afli skipsins alls 787 tonn.

,,Undir venjulegum kringumstæðum væri ekki mikið að gera hjá okkur um þessar mundir þar sem stefnan er sú að sem allra mest af síldaraflanum sé unninn til manneldis. Því hafa skip félagsins siglt með síldina til Vopnafjarðar. Hér á Akranesi hefur verið reynt að fá hrat frá vinnsluskipunum til bræðslu og í síðustu viku kom Hákon EA hingað með um 460 tonn af hrati. Þá kom Súlan EA með um 530 tonn til bræðslu. Þar af voru um 200 tonn af hrati frá Vilhelm Þorsteinssyni EA og um 330 tonn af síld. Loks fengum við aflann frá Ingunni AK og það hefur því verið miklu meira að gera í bræðslunni en ráð var fyrir gert,” segir Guðmundur Hannesson en þess má geta að afkastagetan í bræðslunni á Akranesi er um 950 tonn af hráefni á sólarhring.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir