FréttirSkrá á póstlista

01.12.2008

Fundað um stöðu síldveiðanna

Í dag mun LÍÚ standa fyrir fundi um stöðu mála varðandi íslenska síldarstofninn og framhald síldveiðanna í ljósi sýkingarinnar sem orðið hefur vart í síld sem veiðst hefur á Breiðafirði síðustu daga.

Síld á Breiðafirði og víðar er sýkt af sníkjudýrinu Iktíófónus að því er fram kemur á vef RÚV.  Nær allur fiskur sem sýkist drepst. Hafrannsóknarstofnun hefur óskað eftir sýnum úr hverju kasti allra síldveiðiskipa og í fréttinni segir að sjómenn á síldveiðiskipunum hafi orðið sýkingarinnar fyrst varir á föstudag og bráðabirgðarannsókn bendi til þess að um Iktíófónus sé að ræða.

Hægt er að nýta sýkta síld sem veiðist í bræðslu, en ekki til manneldis. Þetta sníkjudýr hefur ekki greinst áður í síld hér við land en hefur fundist í skarkola. Síldarstofninn við Noreg fór hinsvegar illa út úr svona sýkingu árin 1991-l993.

,,Litlir nabbar standa út úr holdi þeirra fiska sem sýkjast. Einkenni sjúkdómsins sjást fyrst á innri líffærum, s.s. hjarta og nýrum. Sýkingin berst svo út í holdið og veldur miklum roða. Þær skemmdir sem sníkjudýrið veldur á fiskinum draga hann að lokum til dauða,” segir í frétt RÚV.

Ljóst er að menn standa frammi fyrir töluverðum vanda varðandi framhald veiðanna. Ekki er hægt að nýta sýkta síld til manneldis en hún nýtist hins vegar til bræðslu. HB Grandi á nú eftir um 11.000 tonna síldarkvóta en heildarkvóti félagsins á íslenskri sumargotssíld er um 17.500 tonn.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir