FréttirSkrá á póstlista

25.11.2008

Hlutfall vorgotssíldar var óverulegt

Sýni úr síldarafla Lundeyjar NS, sem fékkst í Jökulfjörðum sl. föstudag, voru rannsökuð hjá Hafrannsóknastofnun í gær og var niðurstaðan úr þeirri rannsókn allt önnur en skipverjar á Lundey NS komust að við skoðun á síldum um borð í skipinu.

,,Við fengum tæplega 100 síldar til skoðunar og af þeim var aðeins ein vorgotssíld. Hvort hún er úr stofni norsk-íslensku síldarinnar eða úr leifunum að stofni gömlu íslensku vorgotssíldarinnar er hins vegar ómögulegt að segja til um á þessu stigi,” sagði Guðmundur Óskarsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, er rætt var við hann í morgun.

Að sögn Guðmundar er mikilvægt að fleiri sýni fáist til skoðunar en a.m.k. þrjú önnur skip fengu síldarafla í Jökulfjörðum um helgina. Munu einhver sýni vera á leiðinni til stofnunarinnar og e.t.v. geta þau varpað frekara ljósi á það hvort vorgotssíld hafi í meira mæli blandast saman við íslensku sumargotssíldina sem nú er verið að veiða. Ljóst er að aukin útbreiðsla norsk-íslenska síldarstofnsins að sumarlagi, þegar síldin er í ætisleit, hefur valdið því að norsk-íslenska síldin hefur blandast saman við íslensku sumargotssíldina í auknum mæli og þá ekki síst á hafsvæðinu austur af landinu. Til þess að hægt sé að fylgjast með nýtingu aflaheimildanna úr báðum stofnum eru tekin fjölmörg sýni um borð í skipunum. Á grundvelli rannsókna á þeim er svo hægt að segja fyrir um það hve mikið skipin hafa veitt af norsk-íslenskri síld og hve mikið af íslenskri sumargotssíld.

Þess má geta að gær voru tvö skip að síldveiðum í Ísafjarðardjúpi en árangurinn var lítill og færðu þau sig yfir í Breiðafjörðinn í nótt.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir