FréttirSkrá á póstlista

24.11.2008

Mikill munur á síldinni úr Jökulfjörðum og síld úr Breiðafirði

Fréttin um síldarafla Lundeyjar NS, sem fékkst inni á Jökulfjörðum í Ísafjarðardjúpi sl. föstudag, hefur vakið mikla athygli enda kom það skipverjum verulega á óvart að um 80% aflans var síld með hrognum og sviljum. Á meðfylgjandi myndum má sjá að mikill munur er á síldinni, sem Lundey NS fékk, og svo síld sem Faxi RE fékk sama dag á Kiðeyjarsundi út af Stykkishólmi.

Búið er að vinna síldarafla Lundeyjar NS á Vopnafirði en að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra voru sýni tekin og þau send til Hafrannsóknastofnunar þar sem þau verða rannsökuð í dag.

,,Aflinn fór allur í vinnslu. Það fór lítill hluti aflans í heilfrystingu en hitt var unnið í flapsa eða samflök,” segir Magnús en að hans sögn var hluti aflans mjög stór síld eða allt upp í um 450 grömm að þyngd.

,,Það var töluvert mikil hrognafylling í síldinni og maður fær ekki séð að þetta sé síld sem hefði átt að hrygna næsta sumar. Annars er best að bíða eftir niðurstöðum fiskifræðinga. Þeir hljóta að geta svarað því um hvaða stofn er að ræða,” segir Magnús Róbertsson.

Þess má geta að síld úr norsk-íslenska síldarstofninum hrygnir við Noreg á tímabilinu frá febrúar fram í apríl á meðan íslenska sumargotssíldin hrygnir aðallega í júlímánuði.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir