FréttirSkrá á póstlista

20.11.2008

Evrópuumræðan og hin hliðin

,,Stuðningsmenn ESB aðildar verða aldrei trúverðugir nema þeir takist á við þann vanda, sem sjávarútveginum verður búinn með aðild.  Þótt sjávarútvegurinn hafi í hugum margra verið orðinn jaðaratvinnugrein á tímum útrásar og uppvaxtar fjármálaþjónustu sem burðarásar íslensks efnahagslífs, þá er núna öldin önnur.  Sjávarútvegurinn ber ennþá uppi rétt um helming útflutnings landsmanna og fari illa fyrir honum, þá fer einnig illa fyrir landinu í heild.  Þetta verða ábyrgir leiðtogar í stjórnmálum og atvinnulífi að hafa í huga."

Þetta segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í morgun. Grein Eggerts Benedikts er svohljóðandi:

,,Fjálglega er um þessar mundir rætt um mögulega umsókn Íslands að Evrópusambandinu.  Andstæðar fylkingar hamra á því að þeirra leið sé ekki aðeins sú besta, heldur sú eina mögulega.  Galli á þessari umræðu er að hvorug fylkingin virðist sýna gagnstæðum málstað mikinn skilning.  Þannig láta menn gjarnan eins og rök mótaðilans séu ekki til, í stað þess að mæta þeim og andmæla.  Slíkt er ekki líkleg leið til sameiginlegrar niðurstöðu, sem hlýtur þó að vera keppikefli okkar allra.

 Af hverju ESB?

Stuðningsmenn aðildar að ESB staðhæfa að íslenska krónan sé í rauninni dauð.  Því sé okkur sá einn kostur mögulegur að taka upp evruna.  Flestir virðast nú sammála um að evran verði ekki upp tekin án aðildar að ESB og því sé rétt að sækja þar um aðild hið fyrsta.  Vissulega benda menn á fleiri rök ESB umsókn til stuðnings, en aðgengi að evrunni er núna langefst á baugi og án efa þau rök, sem valda því að stuðningur við ESB umsókn mælist nú svo hár í skoðanakönnunum.

Óneitanlega kæmi það sjávarútveginum vel að hér væri notuð evra, sérstaklega ef hún hefði þegar verið tekin upp fyrir nokkrum misserum.  Eigið fé fyrirtækjanna hefði ekki hrunið á þessu ári.  Lágt vaxtastig án gengisáhættu hefði bætt afkomuna.  Verðbólga hefði sennilega verið lægri.  Gengistengdar sveiflur í afkomu og uppgjörum hefðu verið minni.  Þær hefðu að vísu ekki horfið alveg, vegna innbyrðis sveiflna á milli evru, dals, yens, o.s.frv., en minnkað verulega.  Loks hefði evran vafalítið gert okkur betur í stakk búin til þess að takast á við þá kreppu, sem nú fer sem vofa um heim allan.  Ef hægt væri að taka upp evru án þess að ganga í ESB væri ákvörðunin því afar freistandi, jafnvel fyrir sjávarútveginn.  En þar sem aðgöngumiðinn að Evrulandi kostar inngöngu í ESB, fylgja gallar gjöf Njarðar.

 Af hverju ekki?

Andstæðingar umsóknar eiga einkum rætur í sjávarútvegi eða hafa a.m.k. skilning á mikilvægi hans fyrir þjóðarbúið.  Þeir benda á alvarlega galla aðildar fyrir sjávarútveginn.  Mest áhersla hefur verið lögð á þrjú atriði, sem breytast myndu til hins verra við inngöngu Íslands í ESB:

1. Forræði yfir auðlindanýtingu og þar með veigamiklum þáttum í stjórn fiskveiða við Ísland myndi færast frá íslenskum stjórnvöldum  til  ESB.  Þetta óttast íslenskur sjávarútvegur, enda geta við þetta önnur pólitísk sjónarmið ráðið ákvörðunum, en þau sem snúa að því hvað íslenska sjávarútveginum sjálfum er fyrir bestu.

2. Umboð Íslands í samningum við önnur ríki um veiðar úr sameiginlegum fiskstofnun myndi færast til ESB.  Af þessu stafar mikil ógn fyrir íslenskan sjávarútveg, en forsvarsmenn hans þekkja slæm vinnubrögð ESB í slíkum samningum og vilja síst af öllu leggja mál sín í hendur sambandsins.  Nýlegt dæmi snýr að makrílveiðum Íslendinga í bland við norsk-íslenska síld á liðnu sumri.  Undir stjórn ESB hefðum við engar heimildir haft til makrílveiða og þar af leiðandi einnig átt í basli með að veiða síldina, enda var makríll umfangsmikill meðafli í þeim veiðum.

3. Brottkast á fiski er ekki einasta leyft innan ESB, heldur er sjómönnum skylt að henda fiski, svo sem meðafla án nægilegs kvóta og undirmálsfiski.  Íslenskum skipum er óleyfilegt að henda fiski og skal allur afli að landi borinn.

Nú ber að hafa i huga að háværar raddir innan ESB mæla um þessar mundir með endurskoðun á fiskveiðistefnu sambandsins.  Þá ber líka að geta þess, allrar sanngirni vegna, að aðild hefði að sjálfsögðu einhverja kosti.  Þar hefur t.d. verið bent á möguleika Íslendinga á að skipta á aflaheimildum við útgerðir í ESB löndum, en slík skipti eru nánast ómöguleg núna.  Innan ESB eru slík skipti hins vegar einföld og gætu verið hagstæð fyrir Íslendinga.

Í heildina eru þó afar miklir annmarkar á ESB aðild fyrir íslenskan sjávarútveg og vega þeir þyngra en kostir evruupptöku.  Það stoðar nefnilega lítið að hafa gott umhverfi utan um íslenskt atvinnulíf, ef stór hluti þess atvinnulífs hverfur á braut.

 Hin hliðin

Stuðningsmenn ESB aðildar verða aldrei trúverðugir nema þeir takist á við þann vanda, sem sjávarútveginum verður búinn með aðild.  Þótt sjávarútvegurinn hafi í hugum margra verið orðinn jaðaratvinnugrein á tímum útrásar og uppvaxtar fjármálaþjónustu sem burðarásar íslensks efnahagslífs, þá er núna öldin önnur.  Sjávarútvegurinn ber ennþá uppi rétt um helming útflutnings landsmanna og fari illa fyrir honum, þá fer einnig illa fyrir landinu í heild.  Þetta verða ábyrgir leiðtogar í stjórnmálum og atvinnulífi að hafa í huga.

Á sama hátt getur sjávarútvegurinn ekki hundsað kröfu ýmissa atvinnugreina og borgara landsins um stöðuga mynt sem treystandi sé á. 

Ef krónan er dauð og evran, og þar með ESB, er eini kosturinn, þá þýðir lítið að loka augunum fyrir því.

En er krónan dauð?  Þessari spurningu hlýtur sjávarútvegurinn því að reyna að svara.  Gerum tilraun.  Hægt er að halda því fram með nokkrum rétti að ekki  hafi á það reynt hvort hægt sé að halda hér úti sjálfstæðri mynt ef vel er á málum haldið.  Sjávarútvegurinn hefur undanfarin misseri verið óþreytandi við að benda á gallana við himinhátt vaxtastig á Íslandi.  Þessir ofurháu vextir lögðu grunn af allt of háu gengi íslensku krónunnar.  Það háa gengi lagði bagga á útflutningsatvinnuvegina og hvatti til hömlulausrar eyðslu í innfluttar vörur.  Ofurvextirnir drógu síðan að erlent fjármagn í formi jöklabréfa, sem kom hingað sólgið í skjótfenginn vaxtagróða.  Þessi vaxtagróði útlendinga var um skeið tiltölulega áhættulaus, þar sem Seðlabankinn hélt áfram að hækka vexti, sem viðhélt styrk krónunnar.  Jöklabréfin hafa síðan valdið miklum óstöðugleika og skelfilegt vaxtastig þessa dagana er réttlætt sem örvæntingarfull tilraun til þess að halda þessu fé enn um sinn inni í landinu.

Gagnrýni á þessa vaxtastefnu var jafnan svarað með því að yrði þumlungur gefinn eftir, færi verðbólgan á flug.  Var það réttmætt svar?  Háir vextir lækka ekki verðbólgu beint.  Þeir geta hins vegar dregið úr þenslu, sem er ein orsök verðbólgu.  Þenslan hérlendis var hins vegar að minnstu leyti knúin áfram af innlendum, óverðtryggðum lánum.  Stærstur hluti hennar var fjármagnaður með erlendum lánum eða verðtryggðum innlendum lánum.  Stýrivextir höfðu engin áhrif á erlendu lánin og einungis óbein á þau verðtryggðu.  Þeir hröktu einstaklinga og fyrirtæki hins vegar til þess að taka erlend lán, fremur en innlend, með þeirri gengisáhættu, sem við erum nú að súpa seyðið af.  Þegar krónan loks tók að falla fyrir átta mánuðum, mældist hér eðlilega verðbólga vegna verðhækkana á innfluttum vörum, en ekki vegna innlendrar þenslu.  Samt var stýrivöxtum áfram haldið háum og alltaf var það verðbólgan, sem notuð var sem Grýla.

Gallar við of háa stýrivexti hafa oft verið tíundaðir ítarlega undanfarin misseri.  Þetta er þó rifjað upp hér, þar sem þessi stefna er eitt dæmi af mörgum um það, sem betur hefði verið hægt að gera við stjórn peningamála landsins og verður hægt að gera betur, ef menn svo kjósa.  Það er því ekki augljóst að krónan sé endanlega dauð, því henni hefur ekki ennþá verið gefið almennilegt líf.

Aðgát skal höfð

Ef umræðan heldur áfram sem horfir getur tvennt gerst.  Annar möguleikinn er að stuðningsmönnum ESB takist þrátt fyrir allt ekki að sannfæra þjóðina um gildi aðildar.  Þeim mun þá samt hafa tekist að draga svo mjög úr trausti manna á krónunni að eftir verður tekið um heim allan.  Auðvitað má krónan ekki vera yfir gagnrýni hafin og ekki má verja hana með innistæðulausi lofi.  Gagnrýnin verður hins vegar að vera yfirveguð og hún verður að dæma krónuna í ljósi þeirra möguleika, sem í henni búa, en ekki hvernig henni hefur verið stýrt undanfarin misseri.

Hinn möguleikinn er að sjávarútvegurinn nái ekki að skýra nægilega vel fyrirséðar afleiðingar ESB aðildar fyrir greinina eða mistakist að minna menn á mikilvægi greinarinnar yfir höfuð.  Þá mun hann verða dreginn í ferðina til Brüssel lokaður ofan í bakpoka og hafa lítið um ferðatilhögunina að segja.

Hvorugur þessara kosta er góður.  Við eigum hins vegar betri kosti og á þá eigum við að stefna.  Það er nefnilega oft svo ljómandi gagnlegt að skoða ofurlítið hina hliðina."

Nýjustu fréttir

Allar fréttir