FréttirSkrá á póstlista

19.11.2008

Höfrungur III AK með 223 milljón króna aflaverðmæti

Frystitogarinn Höfrungur III AK kom til hafnar í Reykjavík í morgun eftir um fjögurra vikna veiðiferð. Að sögn Þórðar Magnússonar skipstjóra voru aflabrögð með ágætum eða tæplega 700 tonn upp úr sjó. Aflaverðmætið er áætlað um 223 milljónir króna og þetta er því einn af stærri túrum ársins hvað aflaverðmætið varðar.

,,Við vorum lengst af á veiðum á Hampiðjutorginu og það í þokkalegasta veðri. Veðráttan nú er a.m.k. allt önnur og betri en á sama tíma í fyrra þegar við fengum á okkur sankallaðar hamfaralægðir í svo að segja hverri viku,“ segir Þórður en að hans sögn var aflinn í veiðiferðinni aðallega karfi, grálúða, gulllax og þorskur.

,,Það hjálpaði upp á aflaverðmætið að við vorum með um 90 tonna grálúðuafla. Það er ágætur árangur í ljósi þess að grálúðuafli hefur farið minnkandi og ég er ekki einn um að telja að sóknin í þennan stofn, báðum megin við miðlínuna á milli Íslands og Grænlands, sé orðin of mikil. Stærðin á grálúðunni var hins vegar óvenju góð í veiðiferðinni og mun betri en á sama tíma í fyrra,“ segir Þórður en hann upplýsir að það hafi komið nokkuð flatt upp á hann hve mikið var um þorsk grynnst á grálúðuslóðinni.

,,Við vorum að fá tvö til fjögur tonn af þorski með grálúðunni á sólarhring og það setti mann í dálítinn vanda. Við fáum skammtað um 100 tonna þorskkvóta fyrir veiðiferðina og þar sem ég átti ekki von á því að rekast á þorsk á þessum slóðum þá vorum við búnir að veiða helst til mikið af þorski áður en þessi staða kom upp. Þann vanda verðum við bara að leysa í næstu veiðiferð,“ segir Þórður en að hans sögn kemur það mönnum þannig fyrir sjónir að núorðið sé auðveldast að veiða þær fisktegundir sem mest eru friðaðar. Það eigi t.d. við um þorskinn. Vegna skerðingar þorskkvótans verði menn að skipuleggja sig betur við veiðarnar. Þórður segist óttast skertur þorskkvóti muni þegar til lengdar lætur bitna á öðrum tegundum, s.s. ýsunni. Hann sé skíthræddur um að sóknin í ýsuna sé orðin of mikil. 

Karfaveiðar ganga vel

Þórður segir að það jákvæðasta við togveiðarnar nú í vetrarbyrjun sé hve vel karfaveiðarnar gangi.

,,Karfaaflinn nú hefur verið mun betri en nokkur undanfarin ár. Það er sömuleiðis fín stærð á djúpkarfanum. Gullkarfinn í Víkurálnum og næsta nágrenni er hins vegar í smærri kantinum en á suðurmiðunum er hann hins vegar af góðri stærð,“ segir Þórður.

Svo sem að framan greinir var Höfrungur III AK með þó nokkuð af gulllaxi í þessari veiðiferð og Þórður segir að sá fiskur sé orðinn glettilega verðmikill miðað við það sem var þegar veiðar á gulllaxi hófust fyrst fyrir alvöru á sínum tíma.

,,Þetta er hvítur og fallegur fiskur. Hann fer mest á markað í Úkraínu þar sem mér skilst að hann keppi helst við síld og ódýrari hvítfisktegundir,“ segir Þórður Magnússon.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir