FréttirSkrá á póstlista

14.11.2008

Skip HB Granda mega veiða 61.000 tonn af norsk-íslenskri síld og kolmunna á næsta ári

Nú þegar búið er að ákveða heildarkvóta á norsk-íslenskri síld og kolmunna í Norður-Atlantshafi á næsta ári og hlutur Íslendinga í heildarkvótanum liggur fyrir, er ljóst að í hlut skipa HB Granda koma rúmlega 33.600 tonn af norsk-íslenskri síld og rúmlega 20.000 tonn af kolmunna. Að teknu tilliti til yfirfærslu á óveiddum kvóta milli ára verða veiðiheimildirnar á árinu 2009 hins vegar mun rýmri eða rúmlega 36.700 tonn af síld úr norsk-íslenska síldarstofninum og tæplega 24.300 tonn af kolmunna.

Samkvæmt samkomulagi strandríkjanna, sem eiga veiðirétt úr viðkomandi stofnum, verður heildarkvótinn á norsk-íslenskri síld 1.643.000 tonn á næsta ári. Þar af koma um 238.400 tonn í hlut íslenskra útgerða. Ákveðið hefur verið að kolmunnakvóti næsta árs verði 590.000 tonn, með fyrirvara um samþykki Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), og það þýðir að rúmlega 95.700 tonn af kolmunna koma í hlut íslenskra skipa á árinu 2009.

Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, hefur félagið leyfi til að færa 3.106 tonn af af óveiddum kvóta ársins, hvað varðar norsk-íslensku síldina, yfir til næsta árs og alls munu skip félagsins því geta veitt 36.720 tonn af norsk-íslenskri síld á árinu 2009. Hvað varðar kolmunnann þá er heimil færsla á 4.246 tonnum milli ára og heildarveiðiheimild næsta árs verður samkvæmt því 24.285 tonn. Til samanburðar má geta þess að HB Grandi fékk úthlutað um 31.000 tonna kvóta úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári og kolmunnaveiði skipa félagsins var um 26.000 tonn á árinu.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir