FréttirSkrá á póstlista

13.11.2008

850 tonnum af síld landað úr Ingunni AK í Norður-Noregi

Löndun hófst í morgun úr Ingunni AK í Væröy í Norður-Noregi en þangað kom skipið með um 850 tonn af síld í gærmorgun. Aflinn var seldur á uppboði til fiskvinnslufyrirtækisins Lofoten Viking og fer hann allur til vinnslu.

Að sögn Róberts Axelssonar, fyrsta stýrimanns og afleysingaskipstjóra á Ingunni AK, verður lokið við að landa úr skipinu í fyrramálið og verður stefnan tekin á miðin í norsku lögsögunni að nýju síðdegis á morgun.

Ingunn AK hefur verið við veiðar í Síldarsmugunni og norsku lögsögunni að undanförnu en Lundey NS er nú komin heim að nýju og fer til síldveiða á heimamiðum í kvöld.

Að sögn Róberts gekk ágætlega í síðustu veiðiferð og fékkst aflinn í sex köstum á um sólarhring.

,,Við vorum að veiðum um 140 mílur norðvestur af Tromsö. Síldin er ágæt og meðalvigtin hjá okkur í veiðiferðinni var 353 grömm. Meðalverðið hjá okkur var 2,77 NOK/kg eða um 53 ísl. kr/kg miðað það gengi sem við studdumst við. Verðið hefur farið lækkandi enda hefur töluverður síldarafli borist að landi síðustu dagana. Við urðum t.a.m. að bíða í um sólarhring í höfninni áður en röðin kom að okkur varðandi löndun,“ sagði Róbert en samkvæmt upplýsingum hans á HB Grandi nú eftir um 400 til 500 tonna síldarkvóta í norsku lögsögunni. Skipið á því aðeins eftir að fara í eina veiðiferð áður en siglt verður heim til Íslands að nýju.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir