FréttirSkrá á póstlista

12.11.2008

,,Erum að ná betri tökum á tveggja trolla veiðunum"

Frystitogarinn Örfirisey RE kom til hafnar í Reykjavík í gærmorgun eftir u.þ.b. fjórar vikur á veiðum. Aflinn í veiðiferðinni var um 580 tonn af fiski upp úr sjó eða rúmlega 330 tonn af afurðum. Aflaverðmætið er áætlað um 140 milljónir króna.

,,Við vorum mest að reyna við karfa og þá aðallega hér á suðursvæðinu þótt við höfum einnig reynt fyrir okkur á Vestfjarðamiðum. Aflabrögðin voru alveg þokkaleg og karfaveiðin er farin að glæðast,” segir Trausti Egilsson, skipstjóri á Örfirisey RE. Þess má geta að uppistaðan í aflanum var djúpkarfi en nefna má að einnig fékkst nokkuð af gullkarfa og ein 90 tonn af þorski.

Í vor var þriðja togvindan sett í Örfirisey RE með það að markmiði að hægt sé að toga með tveimur trollum samtímis. Var þetta fyrsta veiðiferðin þar sem þessari veiðiaðferð var beitt nánast eingöngu.

,,Við höfum verið að prófa okkur áfram með tveggja trolla veiðarnar en það hafa ýmsir byrjunarörðugleikar komið upp eins og gengur og gerist. Það hefur tekið sinn tíma að ná tökum á þessu en ég er ágætlega ánægður með árangurinn í þessari veiðiferð,” segir Trausti en hann upplýsir að hægt sé að merkja greinilega aflaaukningu á því sem hann kallar viðráðanlegu karfadýpi.

,,Annars snúast þessar veiðar ekki bara um aflaaukninguna. Þetta er miklu meira spurning um samspil afla og olíukostnaðar og með því að nota tvö troll í stað eins þá hefur það sýnt sig að við höfum getað stundað karfaveiðar á svæðum þar sem ekki væri hægt að réttlæta veiðar með einu trolli vegna olíukostnaðarins,” segir Trausti en þess má geta að í nýafstaðinni veiðiferð var veitt með tveimur L80 botntrollum frá Hampiðjunni en þau eru með tæplega 50 metra höfuðlínulengd hvort um sig. Notaðir eru tveir 4,5 tonna toghlerar og á milli trollanna er 6,5 tonna lóð.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir