FréttirSkrá á póstlista

10.11.2008

Síldin gefur sig ekki til

,,Það er sáralítið um að vera. Við erum búnir að vera hér síðan á laugardag og höfum enn ekki getað kastað. Það eru átta síldveiðiskip hér á veiðisvæðinu og þeir, sem hafa getað kastað, hafa fengið lítinn afla,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er rætt var við hann nú upp úr hádeginu. Faxi RE var þá á Kiðeyjarsundi út af Stykkishólmi þar sem síldveiðin hefur aðallega verið að undanförnu.

Faxi RE var kominn á miðin í Breiðafirði sl. laugardag eftir að hafa komið með 860 tonna afla til vinnslu á Vopnafirði um miðja síðustu viku. Lokið var við að vinna þann afla sl. föstdag. Síldin var góð og var hluti aflans unninn í roðlaus flök en megnið var unnið í samflök.

Að sögn Alberts voru aðstæður erfiðar á veiðisvæðinu í gær, bræla og lítið veiðiveður. Veðrið er betra í dag en síldin liggur djúpt og hefur ekki gefið færi á sér.

Ingunn AK og Lundey NS hafa verið að veiðum í Síldarsmugunni og norsku lögsögunni. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarveiðisviðs HB Granda, fór Lundey NS frá Lödingen að lokinni löndun á 580 tonnum af síld um miðnætti á föstudag. Aflinn fór allur í vinnslu. Skipið hefur undanfarna daga verið við leit í Síldarsmugunni án árangurs og hefur stefnan nú verið tekin áleiðis heim. Leitað verður að síld á leiðinni.

Ingunn AK fór frá Bodö á laugardagskvöldið að lokinni löndun á 530 tonnum af síld sem fóru til vinnslu. Að sögn Vilhjálms er stefnt er að því að skipið fari tvær veiðiferðir til viðbótar í norskri landhelgi. Ingunn AK fékk 350 tonn í nótina í nótt sem leið og verður því aðra nótt á miðunum en síldin gefur sig helst á nóttunni. Eftirstöðvar kvóta skipa HB Granda í norskri landhelgi eru nú tæplega 1.000 tonn.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir