FréttirSkrá á póstlista

04.11.2008

Vinnur á meðan flestir sofa

Þegar flestir starfsmenn HB Granda eru í fastasvefni hefst vinnudagur Yutaka Albert Akasof, sölustjóra félagsins fyrir Asíumarkað. Hann er oftast kominn á skrifstofu sína um kl. 4.30 á nóttunni og í framhaldinu taka við samskipti og símtöl til viðskiptavina í Japan og víðar. Ástæðan fyrir þessum undarlega vinnutíma er einföld. Níu tíma munur er á Íslandi og Japan og  leiðin fyrir Akasof, eins og hann er alltaf kallaður, til að ná sambandi við kaupendur í heimalandi sínu á skrifstofutíma þar í landi er sú að vakna fyrir allar aldir og nýta  árdegið sem best. Tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við Akasof um starf hans og stöðu markaðsmála í Japan en fyrst nokkur orð um uppruna þessa geðþekka Japana og tengsl hans við Ísland.

Yutaka Albert Akasof er 62 ára, fæddur á Hokkaido sem er nyrsta eyjan í Japan. Hann segist vera sveitastrákur og alinn upp í fjallahéraði norðarlega á eyjunni.

,,Ég var 13 ára þegar ég sá hafið fyrst og það hvarflaði ekki að mér þá að ég ætti eftir að verja mestum mínum starfstíma á sviði sjávarútvegs og sölu sjávarafurða,” segir Akasof en að hans sögn var loftslag á Hokkaido, þegar hann var að alast upp, ekki svo ósvipað því sem er nú á Íslandi. Reyndar var kaldara á vetrum en sumarhitinn þá var svipaður og nú gerist á Íslandi.

Akasof lagði stund á germönsk og engilsaxnesk fræði við háskóla í Tókyó. Hann fékk snemma áhuga á tungumálum og þjóðháttafræðum og sá áhugi átti á sínum tíma þátt í að leið hans lá til Íslands.

,,Ég hafði verið um skeið í Evrópu vegna náms míns og mig langaði til að kynna mér betur sögu víkinganna. Ég kom fyrst til Íslands árið 1973 og fékk þá vinnu í frystihúsi Ísbjarnarins sem síðar sameinaðist Bæjarútgerð Reykjavíkur og varð loks að Granda og síðar HB Granda. Akasof hélt síðan aftur heim til Japan árið 1975 og réðist þá til nýstofnaðs fyrirtækis sem að hluta var í eigu Íslendinga og seldi fisk frá Íslandi og þá aðallega loðnu.  Að hans sögn hófu Japanir töluverð kaup á  frystri loðnu frá Íslandi á áttunda áratugnum. Þau viðskipti komust reyndar á með nokkuð sérstökum hætti.

,,Þannig var að heiðursræðismaður Íslands í Japan kom hingað til lands og fyrir tilviljun fékk hann að bragða á íslenskri loðnu í heimsókn sinni. Til er svipaður fiskur í Japan, sem heitir Shishamo og er mjög vinsæl afurð. Kynni ræðismannsins af íslensku loðnunni urðu til þess að ákveðið var að senda eitt tonn af frystri, íslenskri loðnu til japanskra kaupenda og það var upphafið að farsælum viðskiptum landanna með sjávarafurðir,” segir Akasof en þess má geta að íslenska loðnan er seld í Japan undir Shishamo-nafninu.

 Aftur til Íslands

Leið Akasof lá aftur til Íslands á árinu 1977 og þá starfaði hann m.a. sem tæknilegur ráðgjafi á sviði sjávarútvegs. Á árunum 1991 til 1995 var Akasof gæðastjóri hjá frystihúsi Fáfnis á Dýrafirði og í framhaldinu lá leið hans til Rotterdam og Lundúna þar sem hann vann við sölu sjávarafurða fram til ársins 2000. Leiðin lá einnig til Danmerkur þar sem Akasof var um skeið framkvæmdastjóri hjá fisksölufyrirtæki.

,,Ég kom svo aftur til Íslands árið 2004 og hóf þá störf í markaðsdeild Granda. Mánuði síðar sameinuðust svo Grandi og HB undir merkjum HB Granda.”

Akasof er sem fyrr segir sölustjóri HB Granda fyrir Asíumarkaðinn með aðaláherslu á Japan. 

,,Til að byrja með seldum við reyndar afurðirnar að mestu  í gegnum milliliði en frá og með árinu 2005 hófum við að selja afurðir undir okkar eigin vörumerki og nú er svo komið að allar okkar afurðir eru seldar undir merkjum HB Granda.”

 Fryst loðnuhrogn og djúpkarfi eru vinsælustu afurðirnar

Ef litið er á Asíumarkaðinn þá segir Akasof að fryst loðnuhrogn og djúpkarfi (úthafskarfi) séu vinsælustu vörur félagsins en þær afurðir  eru að stórum hluta seldar til Japans. Einnig er nokkuð um sölu á frystri loðnu  og grálúðu en salan  hefur heldur dregist saman frá því sem var og stafar það eingöngu af því að aflaheimildirnar hafa minnkað.

,,Það getur tekið tvo mánuði að koma afurðunum frá Íslandi til Japan. Þetta er mjög viðkvæmur markaður og samkeppnin er oft mjög mikil. Þannig er það t.d. með úthafskarfann. Íslenskur úthafskarfi keppir við karfa frá Noregi, Rússlandi og fleiri þjóðum á japanska markaðnum. Þeir, sem ætla að ná árangri, verða að leggja allt kapp á gæði og ferskleika afurðanna. Það er algjört lykilatriði. Japanir eru sú þjóð sem borðar hvað mest af fiskmeti og flytur sömuleiðis mest inn af sjávarafurðum og neytendur eru mjög meðvitaðir um það hvernig afurðirnar eiga að vera. Ef ég nefni úthafskarfann, sem dæmi, þá þarf liturinn að vera fallega rauður. Fiskurinn þarf að vera  hausskorinn á réttan hátt og aðrir útlitsgallar verða að vera í lágmarki. Því hefur oft verið haldið fram að Japanir borði ekki síður með augunum en munninum og það er mikið til í því. Hin sjónræna framsetning afurðanna þarf að vera rétt auk þess sem miklar kröfur eru gerðar til gæða og ferskleika.”

 Líta ekki við öðrum karfa en sjófrystum djúpkarfa

Á árum áður var töluvert flutt utan af landfrystum gullkarfa til Japan en Akasof segir að undanfarna tvo áratugi hafi Japanir ekki litið við öðru en sjófrystum djúpkarfa frá Íslandi og öðrum löndum.

,,Japansmarkaðurinn vill bara djúpkarfa, sem á latínu nefnist sebastes mentella, og úthafskarfinn, sem Íslendingar eru aðallega að veiða, fellur undir þá skilgreiningu. Þessu viljum við hjá HB Granda að breyta, þótt það kunni að taka nokkurn tíma og fyrirhöfn  því  sjálfum finnst mér gullkarfinn, sem á latínu heitir sebastes marinus, vera betri matfiskur en djúpkarfinn. Ég held að venjulegir neytendur í Japan myndu ekki setja það fyrir sig að kaupa gullkarfa í stað djúpkarfa. Karfinn er fyrst og fremst heimilisneyslufiskur og okkar kynningarstarf mun því beinast að þeim sem stjórna innkaupunum fyrir stórmarkaðina, því þeir ráða ferðinni.“

Akasof segir að HB Grandi selji afurðir sínar til margs konar kaupenda í Japan. Í þeim hópi séu risastór fyrirtæki en einnig smærri fyrirtæki. En hvernig er staðan á japanska markaðnum nú um stundir?

 ,,Markaðurinn hefur lengi verið frekar  stöðugur í verði en nú hefur verð almennt heldur lækkað því neytendur hafa minna á milli handanna en oft áður. Þeir eru sömuleiðis mjög meðvitaðir um verðlagningu og viðkvæmir fyrir verðbreytingum. Við gætum reyndar selt mun meira af afurðum til Japan en við gerum nú en það er ekki einfalt að ráða bót á þeim vanda. Kvótaskerðing hér heima hefur dregið úr framboðinu, samkeppni við fisk frá öðrum þjóðum er mikil og hluti þeirra afurða, sem við gætum hæglega selt til Japan, fer á Evrópumarkaðinn. Verðið á hverjum tíma ræður því hvert afurðirnar eru seldar,” segir Akasof en til marks um þróun innflutnings á karfa til Japan nefnir hann að heildarinnflutningur Japana á árinu 2003 hafi numið um 42.000 tonnum og meðalverðið hafi verið 228 yen (cif). Þar af komu um 16.000 tonn frá Íslandi og var meðalverðið á íslenska karfanum 251 yen.  Í fyrra (2007) var magnið  um 25.000 tonn og meðalverðið þá var 361 yen. Það ár fluttu Íslendingar um 7.400 tonn af karfa til Japan og meðalverðið var þá 417 yen.

 Útflutningur til annarra Asíulanda

,,Helstu  afurðirnar, sem við seljum til Kína, eru frystir grálúðuhausar og –sporðar en fyrir þær fæst hátt verð. Auk þess seljum við þangað sjófrystan gullkarfa og heilfrysta smáýsu. Til Kóreu seljum við aðallega loðnuhrogn. Svo er mjög góður markaður fyrir stærstu grálúðuna (+3 kg) á Tævan. Það má  segja að full þörf sé fyrir stærri grálúðukvóta en ástand stofnsins verður að fá að ráða veiðinni hverju sinni. Á sama hátt má segja að ekki veiti af því að fá aukinn loðnukvóta,” segir Yutaka Albert Akasov.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir