FréttirSkrá á póstlista

03.11.2008

Löndunarbið hjá Lundey NS og Ingunni AK í Noregi

Nokkur íslensk síldveiðiskip hafa að undanförnu verið að veiðum í Síldarsmugunni og í norskri lögsögu. Í þeim tilvikum, sem síldin er ekki unnin um borð, er aflinn yfirleitt seldur til norskra fiskvinnslufyrirtækja.

Tvö skip HB Granda eru nú í Noregi með samtals tæplega 1.110 tonna afla. Löndunarbið er í Noregi um þessar mundir.

Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarvinnslu HB Granda, er Ingunn AK nú í Lödningen með um 500 tonna afla og Lundey NS er í Senjahåpen með um 570 tonn. Aflinn fékkst sl. föstudaginn fyrir brælu sem varir enn.

Að sögn Vilhjálms var mikið framboð af síld á fimmtudag og föstudag á uppboðsmarkaði Norges Sildesalgslag og lentu bæði skip félagsins í löndunarbið. Þannig var Lundey NS fimmta skipið í löndunarbið á laugardag en Ingunn AK kom til Lödingen í gærmorgun. Byrjað var að landa úr báðum skipunum í gærkvöldi. Á vef Norges Sildesalgslag kemur fram að seld hafi verið um 19.200 tonn af norsk-íslenskri síld á uppboðsvef sölusamtakanna í síðustu viku og það sem af er árinu hafa alls um 670 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld verið seld þar í landi.

Faxi RE á leið til Vopnafjarðar

Faxi RE kom á miðin á Breiðafirði í gærmorgun eftir siglingu frá Vopnafirði. Um miðjan dag var skipið komið með um 800 tonna afla og er skipið nú á leið til Vopnafjarðar þar sem síldin fer til vinnslu. Áætlað er að skipið komi þangað í kvöld. Á laugardaginn var skipað út um 400 tonnum frystum síldarafurðum frá Vopnafirði og í dag er verið að skipa út um 1.200 tonnum af mjöli að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir