FréttirSkrá á póstlista

29.10.2008

Ljómandi fín síld

Hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði er nú verið að vinna síld sem Faxi RE kom með um kvöldmatarleytið í gær. Alls var skipið með um 800 tonn af síld og dugar það vinnslunni í tæpa þrjá sólarhringa að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra.

Umræddur afli fékkst um helgina og nú í byrjun vikunnar á Breiðafirði en þaðan er um 30 tíma sigling til Vopnafjarðar. Magnús segir þessa síld vera ljómandi fínt hráefni og hún fari öll til vinnslu. Nýtingin í vinnslunni er um 45-50% og því má búast við því að farmurinn skili tæplega 400 tonnum af frystum samflökum.

,,Þessi síld er heldur smærri en norsk-íslenska síldin en mesti munurinn er hins vegar sá að hún er veidd í nót og því betra hráefni en sú síld sem veidd er í flottroll,“ segir Magnús en að hans sögn stefnir í að búið verði að frysta um 1.200 tonn af síldarafurðum hjá fiskiðjuverinu á Vopnafirði þegar vinnslu farmsins frá Faxa RE lýkur. 

Vinnsla á afskurði brúar bilið

Þar, sem hin tvö uppsjávarveiðiskip HB Granda, Ingunn AK og Lundey NS, eru nú að veiðum í norsku landhelginni verður afla þeirra landað ytra. Það er því aðeins Faxi RE sem sér fiskiðjuverinu á Vopnafirði fyrir síld til vinnslu um þessar mundir. Magnús segir ljóst að ekki muni takast að halda uppi samfelldri síldarvinnslu á næstunni vegna hinna löngu siglinga til og frá miðunum.

,,Við brúum bilið með vinnslu á frystum afskurði frá frystitogurum HB Granda. Uppistaða þess hráefnis er afskurður af þorski. Hann er saltaður en það er ágætur markaður á Spáni fyrir þessa afurð,“ segir Magnús Róbertsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir