FréttirSkrá á póstlista

28.10.2008

Sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins boðið í mat

Undanfarna daga hefur fjölmennur hópur þingmanna úr sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins verið í heimsókn hérlendis. Nefndarmenn heimsóttu fiskiðjuver HB Granda á Norðurgarði í dag, ræddu við helstu stjórnendur félagsins, fylgdust með vinnsluferlinu og þáðu loks hádegisverð þar sem fiskafurðir HB Granda voru uppistaðan í glæsilegu sjávarréttahlaðborði.

Hópurinn,  sem telur um 20 manns, kom hingað til lands sl. sunnudag. Á dagskránni voru m.a. heimsóknir til Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu, LÍÚ, Landssambands smábáteigenda og Landhelgisgæslunnar. Þá áttu nefndarmenn fund með sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis í húsakynnum þingsins og sóttu auk þess ráðuneytið heim. Heimsókninni lýkur með því að gestirnir skoða Tilraunaeldissstöð Hafrannsóknastofnunar á Stað við Grindavík í fyrramálið.

Að sögn Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra HB Granda, sýndu þingmennirnir starfsemi félagsins mikinn áhuga.  Hann kynnti gestum fyrirtækið og fylgdi þeim um vinnslusalinn ásamt Svavari Svavarssyni, markaðsstjóra, og Torfa Þ. Þorsteinssyni, framleiðslustjóra.

Í hádeginu var sendinefndinni síðan boðið til sjávarréttarveislu í matsal HB Granda á Norðurgarði með starfsmönnum félagsins. Meðal þess sem boðið var upp á var heitreyktur þorskur, Parmaskinkuvafinn karfi, pönnusteiktur karfi í humarsósu, djúpsteiktur ufsi í chili sósu, saltaður ufsi með tómötum og ólífum og saltfisksalat.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir