FréttirSkrá á póstlista

15.10.2008

Góður afli á svæðum sem verið var að opna fyrir veiðum

Frystitogarinn Þerney RE kom til hafnar í Reykjavík í gærmorgun eftir 31 dags veiðiferð á Vestfjarðamið. Aflinn var mest karfi en alls námu frystar afurðir í veiðiferðinni um 410 tonnum. Aflaverðmætið er áætlað um 150 milljónir króna miðað við gengisskráningu Seðlabankans nú í byrjun vikunnar.

Ægir Fransson var skipstjóri í veiðiferðinni og að hans sögn einkenndist hún af því að aðallega var verið að veiðum á svæðum sem verið var að opna að nýju eftir langt hlé.

,,Það var t.d. verið að opna karfahólf út af Víkurálnum, sem lokað hefur verið fyrir veiðum um árabil, og þar fengum við mjög góða karfaveiði. Aflinn var um tvö tonn á togtímann til að byrja með og allt var þetta stór og fallega rauður djúpkarfi sem hentar einstaklega fyrir Japansmarkaðinn. Aflinn fór reyndar niður í um eitt tonn á togtímann en aflabrögðin þarna smellpössuðu fyrir vinnsluna. 25 til 30 tonn á sólarhring er mjög fínn afli fyrir okkur,“ segir Ægir en að hans sögn voru flest allir íslensku frystitogararnir, sem á annað borð sækja í karfann, að veiðum á svæðinu.

Að sögn Ægis er ástæðan fyrir því að veiðar hafa verið heimilaðar að nýju innan nokkurra reglugerðarhólfa á Vestfjarðamiðum sú að hitastig sjávar hefur hækkað og smáfiskurinn, sem áður var algengur á þessum slóðum, hefur fært sig annað.

,,Annað lokað hólf til fjölda ára, sem er á Hornbankanum, hefur verið opnað í áföngum og þar fengum við ágæta ufsa- og ýsuveiði. Þetta er mjög jákvæð þróun og opnun þessara hólfa léttir á álaginu á þeim svæðum, sem við höfum mest verið að veiðum á að undanförnu, og dreifir sóknarþunganum,“ segir Ægir en hann getur þess að tíðarfarið í veiðiferðinni hafi verið rysjótt, tíðar brælur og lítil hlé þess á milli.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir