FréttirSkrá á póstlista

13.10.2008

Um 12.500 tonn eftir af síldarkvótanum

Eftirstöðvar síldarkvóta skipa HB Granda eru nú um 12.500 tonn og þar af eru óveidd um 3.300 tonn í norskri landhelgi. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs félagsins, eru góðar horfur á að síldarkvóti ársins náist. Þá er heimilt að færa alls um 3.100 tonn af kvóta ársins yfir á næsta ár þannig sýnt þykir að veiðiheimildir eiga ekki að þurfa að brenna inni.

Að sögn Vilhjálms var afla landað úr Faxa RE og Ingunni AK á Vopnafirði um helgina en alls voru skipin með um 3.200 tonna afla. Um 300 tonn af afla Ingunnar AK fóru til vinnslu og úr því magni voru unnin og fryst 130 tonn af svokölluðum samflökum.

Íslensku síldveiðiskipin eru nú rétt utan norsku landhelginnar á milli 68° og 69°N en um 460 sjómílna sigling er frá Vopnafirði á miðin. Lundey NS kom á miðin í gærmorgun og var skipið komið með um 450 tonna afla í morgun. Búist er við því að Faxi RE verði kominn á miðin í kvöld og Ingunn AK í fyrramálið.

Þess má geta að staða norsk-íslenska síldarstofnsins er talin ákaflega sterk og í dag var greint frá því að Alþjóðahafrannsóknaráðið leggur til að heildarkvóti næsta árs verði aukinn í 1.643 þúsund tonn. Það er rúmlega 8% aukning milli ára og verði það niðurstaðan verður heildarkvóti íslenskra skipa rúmlega 238 þúsund tonn á næsta ári.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir