FréttirSkrá á póstlista

09.10.2008

Síldin veiðanleg í nokkra klukkutíma á kvöldin

Lundey NS kom til Vopnafjarðar nú upp úr hádeginu með alls um 730 tonn af síld. Aflinn fékkst aðallega á Jan Mayensvæðinu en að sögn Stefáns Geirs Jónssonar, sem er skipstjóri í þessari veiðiferð, var einnig tekið eitt hol í Síldarsmugunni.

,,Þetta voru alls fjögur hol. Síldin er mjög góð eða um 360 grömm að þyngd að jafnaði. Við höfum fengið ágætis ferðaveður og erum því að vonast til þess að a.m.k. þriðjungur aflans henti til vinnslu hjá fiskiðjuverinu á Vopnafirði. Annað fer í bræðslu,“ segir Stefán Geir.

Veiðisvæðið er rúmar 300 sjómílur frá Vopnafirði en á svæðinu voru sjö íslensk skip þegar Lundey NS hélt heim á leið. Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda voru á svæðinu en auk þeirra voru þar Júpíter ÞH og Þorsteinn ÞH saman með eitt troll sem og Margrét EA og Börkur NK.

Að sögn Stefáns Geirs hefur veður verið rysjótt upp á síðkastið fyrir norðan landið.

,,Við vorum tvo sólarhringa að berjast norður á Jan Mayensvæðið og gátum ekki hafið veiðar fyrr en 5. október sl. Inn á milli kom þó þokkalegasta veiðiveður en vandinn er sá að það er ekki auðvelt að eiga við síldina og magnið virðist ekki vera alltof mikið. Á daginn fer síldin niður á 180 til 200 faðma dýpi og torfurnar eru litlar og lélegar og það er erfitt að finna þær. Hún kemur hins vegar upp á 15 til 20 faðma dýpi um leið og það dimmir og þá höfum við haft nokkra tíma til að eiga við hana. Yfirleitt er botninn svo dottinn úr veiðinni vel fyrir miðnætti,“ segir Stefán Geir Jónsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir