FréttirSkrá á póstlista

08.10.2008

Okkar hlutverk er stórt og ábyrgð okkar mikil

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, sendi öllu starfsfólki félagsins bréf í gærkvöldi. Bréfið fer hér á eftir í heild.

Ágæta samstarfsfólk,

Við stöndum nú í miðri orrahríð neikvæðra frétta um slæma atburði og erfitt ástand.  Ég vil ekki lýja ykkur með því að bæta þar við.  Mig langar hins vegar að eiga við ykkur nokkur orð um það hvaða áhrif þessi tíðindi hafa á okkur sjálf.  Þá á ég við okkur, sem myndum þann stóra hóp, sem í daglegu tali er kallaður HB Grandi.

Undirrót títt rædds vanda snýr að bönkunum og skorti þeirra á lausu fé í erlendri mynt til þess að standa í skilum.  Megináherslan í lausn vandans hefur því verið á leiðir til þess að nálgast aukinn gjaldeyri.  Þetta hafa menn einkum gert með því að selja eignir og taka lán.  Eignir er eingöngu hægt að selja svo lengi sem þær endast.  Lán þarf að greiða til baka þótt síðar verði.  Hin raunverulega uppspretta gjaldeyris hlýtur því að vera hjá þeim fyrirtækjum, sem framleiða vörur, selja þær á erlendum mörkuðum og draga þannig gjaldeyri inn í þjóðarbúið.  Sjávarútvegurinn er þarna í fararbroddi og stendur fyrir um helmingi af vöruútflutningi landsmanna.  Félagið okkar, HB Grandi, stendur þar af fyrir einum tíunda hluta, þannig að segja má að tuttugasti hver eyrir í erlendri mynt, sem inn í landið kemur, sé á okkar vegum.  Þetta er gríðarstórt hlutfall og því er okkar hlutverk stórt og ábyrgð okkar mikil.  Okkar skylda er að rækja þetta hlutverk af alúð og eljusemi, hvort sem við stundum veiðar, vinnslu, markaðsstarf eða önnur þau störf, sem nauðsynleg eru í stóru fyrirtæki.  Á hinn bóginn er það okkar lán, að þjóðfélagið þarf á okkur að halda um þessar mundir sem aldrei fyrr.  Það ætti að fylla okkur öryggistilfinningu á tímum þegar margir óttast um sín störf og þarafleiðandi um sína fjárhagslegu afkomu.  Okkar störf mega ekki tapast.

Mér er auðvitað ljóst að mörg okkar munu tapa hluta af þeim sparnaði, sem við kunnum að hafa lagt í fjárfestingar, sem nú reynast ekki tryggar.  Einhver okkar munu einnig lenda í vandræðum með að standa í skilum með sín lán.  Um þetta tvennt mun áfram ríkja óvissa einhverja næstu daga.  Meginmarkmið stjórnvalda er að tryggja sparifé almennings og koma í veg fyrir gjaldþrot heimilanna.  Stjórnvöld eru líka að undirbúa aðstoð fyrir almenning, sem lendir í vandræðum, t.d. með sín húsnæðislán.  Ég hvet ykkur, sem á þurfið að halda, til þess að nýta ykkur þá ráðgjöf í tíma.

Mikilvægast af öllu er þó að tapa ekki trúnni á framtíðina.  Við búum í landi, sem er auðugt af eftirsóttum auðlindum á sviði matvæla og orku.  Við tilheyrum þjóð, sem er fær um að takast á við erfið verkefni, eins og þau sem nú er við að glíma.  Við vinnum hjá fyrirtæki, sem er í traustum rekstri og hefur mikilvægu hlutverki að gegna á þessum umbrotatímum.  Við skulum ekki þreytast á að minna hvert annað, samstarfsmenn, fjölskyldur og vini, á þessar jákvæðu hliðar.  Með þær að vopni eru okkur allir vegir færir. 

Kær kveðja,

Eggert Benedikt.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir