FréttirSkrá á póstlista

06.10.2008

Búið að frysta tæp 600 tonn af síldarafurðum á Vopnafirði

Frá því að síldarfrysting hófst hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði um miðjan september er búið að frysta alls tæplega 600 tonn af afurðum að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra.

Magnús segir að síldin, sem barst til vinnslu í september, hafi yfirleitt verið mjög væn en upp á síðkastið hefur síldin verið blandaðri af stærð.

,,Það er farið að koma meira með af íslensku sumargotssíldinni. Það eru tekin sýni úr aflanum um borð í skipunum og það fer ekkert á milli mála hvað er norsk-íslensk vorgotssíld og svo íslensk sumargotssíld,“ segir Magnús en að hans sögn hefur hlutfall íslensku síldarinnar farið mest upp í rúman fimmtung af heildaraflanum í síðustu veiðiferðum.

Skip HB Granda eru nú að veiðum við miðlínuna á milli Jan Mayen lögsögunnar og Síldarsmugunnar en frá veiðisvæðinu eru rúmar 300 sjómílur til Vopnafjarðar. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, var Faxi RE fyrstur svæðið og í holi nú í morgunsárið fengust 460 tonn. Lundey NS fékk síðan 200  tonna hol en Ingunn AK var þá að toga og ekki var búið að hífa.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir