FréttirSkrá á póstlista

22.09.2008

Séríslenskt sjávarútvegsmerki kynnt á næstunni

,,Ákveðið hefur verið að auðkenna íslenskar sjávarafurðir sem unnar eru úr afla í íslenskri lögsögu með séríslensku merki. Þetta merki vísar til íslensks uppruna afurðanna og ábyrgra fiskveiða. Heimilt verður að nota það á öllum mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Merkið má jafnframt nota á afla íslenskra fiskiskipa úr deilistofnum sem lúta heildarstjórnun. Merkið verður kynnt á Íslensku sjávarútvegssýningunni 2. – 4. október n.k.“

Svo segir í tilkynningu frá Fiskifélaginu en á undanförnum misserum hefur verið unnið að undirbúningi þessa verkefnis á vegum félagsins í samráði við hagsmunaaðila og stofnanir sjávarútvegsins. Í tilkynningunni segir ennfremur:

,,Á undanförnum árum hafa kröfur um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra auðlinda, þ.á.m. fiskistofna, aukist mjög um allan heim. Það á ekki síst við um helstu markaði íslenskra sjávarafurða.

Fáar þjóðir eru eins háðar því að arðbærar fiskveiðar verði stundaðar til frambúðar og Íslendingar. Því er það lykilatriði fyrir Íslendinga að fiskistofnar séu nýttir á ábyrgan og sjálfbæraran hátt.

Í ágúst 2007 var yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga gefin út. Yfirlýsingin var undirrituð af sjávarútvegsráðherra, forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar, Fiskistofustjóra og formanni Fiskifélags Íslands. Yfirlýsinguna má lesa á vefnum www.fisheries.is , en þar er einnig að finna upplýsingar um ástand fiskistofna og fiskveiðistjórnun við Ísland.“

Fram kemur einnig að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi jafnframt ákveðið með fulltingi stjórnvalda að óska eftir vottun óháðs og alþjóðlega viðurkennds, faggilts vottunaraðila til að staðfesta ábyrgar fiskveiðar Íslendinga. Vottunaraðili mun vinna eftir kröfulýsingu sem byggir á leiðbeiningum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, um verklag við vottun og merkingar afurða úr sjálfbærum fiskistofnum.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir