FréttirSkrá á póstlista

22.09.2008

Íslenska sjávarútvegsmerkið stendur fyrir ábyrgar fiskveiðar

Almennt merki um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga verður kynnt til sögunnar á Íslensku sjávarútvegssýningunni 2.-4. október n.k. Með því má segja að stigið sé mikilvægt skref í því átt að treysta íslenskar sjávaraafurðir í sessi á erlendum mörkuðum í framtíðinni.

Sérstakur stýrihópur hefur leitt þetta verkefni, en í honum eiga sæti dr. Kristján Þórarinsson frá LÍÚ og varaformaður Fiskifélags Íslands, sem er formaður hópsins, Guðbergur Rúnarsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Rúnar Þór Stefánsson frá HB Granda, Gunnar Tómasson frá Þorbirni hf., Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Steinar Ingi Matthíasson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Auk þeirra hefur Finnur Garðarsson, starfsmaður Fiskifélags Íslands, setið fundi stýrihópsins og tekið þátt í störfum hans. Finnur féllst á að svara nokkrum spurningum um hugmyndafræðina sem býr að baki  íslenska sjávarútvegsmerkinu og sömuleiðis um það hvernig ætlunin er að standa að kynningu þess á erlendum vettvangi.

,,Við kynningu merkisins verður sérstök áhersla lögð á að ná til erlendra fjölmiðlamanna. Þeir munu skýra frá áformum okkar í miðlum sínum og með því móti náum við til kaupenda íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum. Merkið vísar til íslensks uppruna afurðanna og til ábyrgra veiða. Með því erum við að skírskota til íslenskrar fiskveiðistjórnunar, sem byggir á bestu vísindaráðgjöf sem völ er á á hverjum tíma og þeim alþjóðasamningum sem í gildi eru og við höfum skuldbundið okkur til að framfylgja. Þetta eru viðbrögð við kröfum markaða og því er þetta hreinræktað markaðstæki.  Við vonumst til að unnt verði að hefja notkun almenna merkisins mjög fljótlega eftir kynningu þess.  Það er í mörg horn að líta, t.d. þarf að skrá merkið á alþjóðavettvangi til að verja það sem okkar eign og setja skýrar reglur um notkun þess og á hvaða afurðir það má nota, “ segir Finnur. 

Vottun ábyrgra fiskveiða

Svo sem fram kemur hér á heimasíðunni hefur einnig verið unnið að undirbúningi vottunar ábyrgra og sjálfbærra veiða Íslendinga um nokkurt skeið og er það hluti af sama verkefni.

Finnur bendir á að kröfurnar, sem gerðar eru á hinum ýmsu markaðssvæðum, geti verið mjög mismunandi. Þannig sé sums staðar lögð meiri áhersla á upprunamerkingu afurðanna frekar en eiginlega vottun. Á öðrum markaðssvæðum skipti hins vegar höfuðmáli að geta sýnt fram á að sjávarafurðir komi úr fiskistofnum, sem nýttir séu á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Finnur leggur áherslu á að vottun afurða geti tekið talsverðan tíma því að það þurfi mjög að vanda til verka í því ferli.

,,Við vinnum eins faglega að því verki og okkur er frekast unnt.“

,,Hvenær reiknið þið með að vottunarferlið fari í gang?“

,,Það er hafið nú þegar. Við höfum sett okkur í samband við nokkra alþjóðlega, viðurkennda og virta vottunaraðila, sem allir hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga. Kröfulýsing, sem vottunaraðili mun votta eftir, hefur verið skrifuð og er til ítarlegrar umfjöllunar hjá sérstakri tækninefnd  með aðkomu stofnana, sem málið varðar. Kröfulýsingin er eins konar staðall og nákvæm lýsing á því hvað vottunaraðilinn á að skoða og taka út til að fá úr því skorið hvort tilteknar veiðar séu sjálfbærar. Eins þarf að sýna fram á rekjanleika afurðanna og sýna fram á með traustu rekjanleikakerfi að tiltekin afurð sé í raun úr vottuðum stofni. Kröfulýsingin er byggð á leiðbeiningarreglum FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um vottun og umhverfismerkingar afurða fiskveiða (The FAO  Guidelines for the Ecolabelling of Fish and Fishery Products from Marine Capture Fisheries). Vinnan við kröfulýsinguna þarf að vera gegnsæ og opin öllum, sem tengjast málinu. Sömuleiðis þarf að kynna kröfulýsinguna opinberlega í tiltekinn tíma til að unnt sé að gera athugasemdir ef til þess kemur.“

,,Er hægt að segja til um hvernær vottunarferlinu ljúki?“

,,Helsti óvissuþátturinn í vottunarferlinu er sá hvort vottunaraðilinn þurfi sérstaka faggildingu til að staðfesta að hann sé fær um að vinna verkið. Það skýrist ekki fyrr en vottunaraðilinn hefur séð kröfulýsinguna og borið hana undir faggildingaraðilann. Allt þetta er í deiglunni. Við gerum okkur vonir um að vottunarferli ljúki fyrir lok næsta árs hvað fyrstu stofnana varðar en erum þó viðbúnir því að það geti tekið lengri tíma.“ 

Kynning á erlendum sjávarútvegssýningum

Að sögn Finns verður kynning á verkefninu og stöðu þess mikilvægasta og brýnasta viðfangsefnið á næstu misserum.

,,Í framhaldi af Íslensku sjávarútvegssýningunni þarf svo að kynna merkið og stöðu vottunar fyrir erlendum kaupendum. Það verður gert með heimsóknum, þátttöku á sýningum með sérstakri áherslu á kynningu á sjávarútvegssýningunni í Brussel. Við munum svara fyrirspurnum og veita viðtöl eftir því sem málin þróast. Það er því mikil vinna framundan og mörg brýn verkefni sem bíða og vonandi verða viðbrögð markaða góð. Okkar helsta framtíðarmarkmið er að geta með vottun staðfest við kaupendur og neytendur íslenskra sjávarafurða að fiskveiðar okkar séu ábyrgar, og að afurðanna sé unnt að neyta með góðri samvisku,“ segir Finnur Garðarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir