FréttirSkrá á póstlista

18.09.2008

Síldarfrysting hafin á Vopnafirði

Síldarfrysting hófst hjá HB Granda á Vopnafirði þegar unnin voru rúmlega 120 tonn af síld sem Ingunn AK kom með að landi. Síldin var gríðarvæn og góðu fréttirnar eru þær að hún veiddist ekki langt frá landi og vel innan íslenskrar lögsögu.

Ingunn AK var um 40 sjómílur frá Vopnafirði þegar snúa þurfti skipinu til lands vegna veðurs og aflinn varð því minni en efni stóðu til.

,,Þetta var ákaflega stór og falleg síld. Aflinn var unnin í samflök auk heilfrystingar í stærðarflokk +400 grömm og meðalvigtin á heilfrystu síldinni var heil 437 grömm,“ segir Magnús Róbertsson vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði. Hann segir vinnsluna hafa gengið ágætlega. Reyndar var verið að taka í notkun nýtt vigtar- og innmötunarkerfi hjá fiskiðjuveri félagsins og að sögn Magnúsar tekur jafnan nokkurn tíma að ná fullkomnum tökum á nýjum búnaði. Byrjunin lofi þó góðu.

Mjög slæmt veður var á Vopnafirði í gær eins og víðast hvar á landinu. Veður er skaplegra í dag en þó slæmt, að sögn Magnúsar, og bíða Ingunn AK og Lundey NS þess að komast til veiða að nýju. Síðarnefnda skipið kom til hafnar í morgun með um 800 tonna afla sem fór til bræðslu. Þriðja uppsjávarveiðiskip HB Granda, Faxi RE, landaði 640 tonnum af síld í Noregi í byrjun vikunnar. Þar af fóru 470 tonn til frystingar í Lödingen en um 170 tonn fóru til bræðslu í Bodö.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir