FréttirSkrá á póstlista

09.09.2008

Gott atvinnuástand á Vopnafirði

Atvinnuástand á Vopnafirði er með besta móti um þessar mundir og að sögn Magnúsar Þórs Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á staðnum, gæti reynst erfitt að fá fólk til afleysinga nú þegar vonir standa til þess að vinnsla og frysting á síld fari að hefjast af fullum krafti.

,,Við erum í þeirri stöðu að við erum nánast með allar vaktir mannaðar en okkur vantar fólk til að hlaupa í skarðið ef fólk veikist eða forfallast á annan hátt,” segir Magnús Þór en hann auglýsti nýlega eftir fólki í vaktavinnu á flökunarvélum og við ýmis önnur störf á vefnum Vopnafjordur.is. Aðeins einn aðili hefur svarað auglýsingunni fram að þessu.

,,Ég neita því ekki að það kom á óvart að fá ekki meiri viðbrögð. Ég fékk hins vegar þær upplýsingar á Vinnumiðlun Austurlands að enginn væri á atvinnuleysisskrá á Vopnafirði og svo er því ekki að leyna að það er töluverð samkeppni um vinnuaflið nú þegar hávertíð er að ganga í garð hjá sláturhúsinu hér á staðnum,” segir Magnús Þór en hann upplýsir að allt sé klárt fyrir síldarfrystinguna. Unnið verður á tveimur 12 tíma vöktum með þeirri undantekningu að starfsfólki úr bolfiskvinnslu félagsins gefst kostur á að standa styttri vaktir. Afkastageta flökunarlínanna er um 240 til 260 tonn af afurðum á sólarhring. Frystigetan er hins vegar miklu meiri.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir