FréttirSkrá á póstlista

02.09.2008

Tæplega 100 milljón króna aflaverðmæti hjá Helgu Maríu AK

Frystitogarinn Helga María AK kom til hafnar sl. laugardag eftir 27 daga veiðiferð á Vestfjarðamiðum. Aflinn í veiðiferðinni var um 470 tonn af fiski upp úr sjó, mest ýsa og ufsi, og afurðirnar námu alls 260 tonnum. Aflaverðmæti er áætlað 97 til 98 milljónir króna.Að sögn Eiríks Ragnarssonar skipstjóra voru aflabrögðin í veiðiferðinni viðunandi og í samræmi við það sem búast má við á þessum árstíma. Áhöfnin á Helgu Maríu AK var að veiðum frá Víkurál og norður og austur í Reykjafjarðarál eða á sama veiðisvæði og í veiðiferðinni á undan.

,,Þetta var allt með hefðbundnum hætti. Reyndar var minna um karfa en oft áður en við vorum með um 40 til 50 tonn af karfa upp úr sjó. Þorskaflinn nam 90 tonnum og það er varla hægt að komast af með minni þorskafla í veiðiferð sem þessari. Þorskurinn er í kalda sjónum í köntunum og ef menn fara ekki varlega þá er auðvelt að veiða of mikið af þorski,” segir Eiríkur. 

Byggja þarf upp loðnustofninn svo þorskurinn hafi eitthvað æti

Að undanförnu hefur verið mikið rætt um mikla þorskseiðagengd fyrir norðan landið en að sögn Eiríks urðu menn ekki sérstaklega varir við að þorskur eða annar fiskur á Vestfjarðamiðunum væri úttroðinn af þorskseiðum.

,,Hins vegar er ljóst að þorskurinn liggur ekki í loðnuáti þarna eins venjan var því það vantar alla loðnu á þessum slóðum. Ég er hræddur um að menn verði að huga að því í fullri alvöru að fara að byggja loðnustofninn upp til þess að þorskurinn hafi nóg að éta. Við höfum örugglega gengið of nærri loðnunni á undanförnum árum og þess sjást merki í því að þorskurinn er í auknum mæli farinn að leita á Grænlandsmið í ætisleit. Það hefur t.a.m. verið góð þorskveiði á Dorhnbankanum og fréttir berast af mokveiði á þorski fyrir sunnan Hvarf,” segir Eiríkur Ragnarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir