FréttirSkrá á póstlista

01.09.2008

Sigldu 200 til 300 sjómílur á milli hola í síldarleit um helgina

,,Þetta hefur verið hrikalega dræmt síðustu dagana. Það er síld að finna mjög víða á gríðarlega stóru svæði en hvergi í veiðanlegu magni. Ef menn eru svo heppnir að hitta á torfu þá fá þeir aðeins eina tilraun. Svo er það búið,“ segir Lárus Grímsson, skipstjóri á Lundey NS, í samtali við heimasíðu HB Granda.

Nú er verið að landa úr Lundey NS og Ásgrími Halldórssyni SF á Vopnafirði, alls um 1.200 tonnum, en skipin hafa verið saman að veiðum að undanförnu. Lárus segir að um helgina hafi allur íslenski síldveiðiflotinn tekið þátt í síldarleit austur og norðaustur af landinu en auk þess hafi færeysk skip leitað að síld mjög víða og Norðmenn séu nú að hefja sínar veiðar.

,,Þetta er feyknalegt svæði. Það er búið að leita að síld með öllu austanverðu landinu, út undir lögsögumörkin á milli Íslands og Færeyja og svo norður undir Jan Mayen og út í Síldarsmuguna. Færeyingarnir hafa leitað norðan við Jan Mayen og í áttina að norsku lögsögunni og hollensk skip voru við síldarleit á Svalbarðasvæðinu í síðustu viku og fengu þar einhvern afla,“ segir Lárus en hann segir að alls staðar verði vart við síld, makríl og jafnvel kolmunna en vandinn sé að finna góðar lóðningar. Ástandið nú sé þannig að engin straum- né hitaskil sé að finna á veiðisvæðinu og flatur 8-10°C yfirborðshiti sé um allan sjó. Fyrir vikið þétti fiskurinn sig ekki í torfum.

,,Staðan er þannig að menn geta siglt dögum saman án þess að hafa mikið upp úr krafsinu. Það sannast best á okkur. Við tókum fyrsta holið í Litladjúpinu. Síðan var kastað á mörkum Síldarsmugunnar og íslensku og færeysku lögsögunnar og þriðja holið tókum við á Jan Mayensvæðinu. Það voru 200 til 300 sjómílur á milli hola,“ segir Lárus en hann telur að úr þessu verði menn að bíða eftir því að síldin þétti sig fyrir gönguna á hrygningarsvæðin við Noreg. HB Grandi er með um 6.000 tonna síldarkvóta í norsku lögsögunni þannig að hægt verður að fylgja síldinni eftir þegar hún gengur austur eftir. 

Makrílgöngur ekkert rannsakaðar:

Að sögn Lárusar hefur hin ævintýralega góða makrílveiði í sumar verið góð búbót fyrir íslenska síldveiðiflotann og í raun megi segja að nú sé makrílvertíðinni að ljúka og að menn geti farið að einbeita sér að því að ná síldarkvótanum. Lárus segir marga sjómenn vera undrandi á því að Hafrannsóknastofnun skuli ekki hafa sinnt rannsóknum á göngum makríls við landið nú í sumar.

,,Mér finnst það ámælisvert. Það er enginn að kortleggja þessar göngur. Hvaðan kemur makríllinn og hvert fer hann? Það virðist vera makríll allt í kringum landið. Hans hefur orðið vart fyrir norðan og sunnan land og inni í Dýrafirði voru menn að rótfiska makríl á stöng í sumar. Hið sama má reyndar segja um síldarrannsóknirnar. Þeim ætti að sinna miklu betur. Einhvers staðar hljóta síldargöngurnar að vera,“ segir Lárus Grímsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir