FréttirSkrá á póstlista

26.08.2008

Fengu síld og makríl NA af Vopnafirði í nótt

Skip HB Granda, Faxi RE og Ingunn AK, eru nú saman að síldveiðum norðaustur af Vopnafirði og á sömu slóðum eru Lundey NS og Ásgrímur Halldórsson SF saman að veiðum.

Að sögn Sveinbjörns Sigmundssonar, verksmiðjustjóra HB Granda á Vopnafirði, fengu skipin þó nokkurn afla í nótt og það ætti því að styttast í að Faxi RE og Ingunn AK komi inn til löndunar.

Lundey NS kom til Vopnafjarðar sl. laugardag með alls 1.537 tonna afla og þar af voru rúmlega 1.000 tonn af makríl. Faxi RE og Ingunn AK fengu ágætis afla á föstudag og  laugardag, að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipanna, en veðráttan gerði áhöfnum skipanna erfitt fyrir á sunnudag og framan af gærdeginum en þá var leitað að síld og makríl í veiðanlegu magni. Sú leit bar árangur í nótt en að sögn Sveinbjörn Sigmundssonar, sem ræddi við skipstjórana í gervihnattasíma, var símabandið slæmt.

,,Ég fékk ekki staðfest hve mikill afli fékkst í nótt en það var á mönnum að skilja að aflinn hafi verið þokkalegur,“ segir Sveinbjörn en þess má geta að skipin voru komin með um 2.000 tonna afla sl. laugardag. 

Nánast full afköst


Mjög góður gangur hefur verið í starfsemi fiskmjölsverksmiðjunnar á Vopnafirði nú í sumar og segir Sveinbjörn verksmiðjuna nánast hafa verið keyrða á fullum afköstum frá því að vertíðin hófst. Búið er að taka á móti rúmlega 25.000 tonnum af síld og makríl í sumar og segir Sveinbjörn það mjög góðan árangur.

Nú styttist í að norsk-íslenska síldin verði komin í það ástand að hægt verði að vinna og frysta síldina í landi. Sveinbjörn telur hins vegar að ekki verði hægt að vinna makrílinn með sama hætti vegna þess hve feitur fiskurinn er um þessar mundir. 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir