FréttirSkrá á póstlista

22.08.2008

Venus HF með 162 milljón króna aflaverðmæti

Frystitogarinn Venus HF kom til hafnar í Reykjavík í gær eftir 40 daga veiðiferð í rússnesku lögsöguna í Barentshafi. Afli upp úr sjó var tæplega 700 tonn og frystar afurðir námu tæplega 290 tonnum. Aflaverðmætið í veiðiferðinni er um 162 milljónir króna.

Að sögn Haraldar Árnasonar, 1. stýrimanns og afleysingaskipstjóra á Venusi HF, sem var með skipið í þessari veiðiferð, voru aflabrögðin ágæt til að byrja með og fyrstu vikurnar var aflinn allt að 24 tonn á sólarhring. Síðan dró heldur úr aflanum og var síðasta vikan á veiðum slökust. Samkvæmt íslenskum kjarasamningum má úthald frystitogaranna ekki fara yfir 40 daga en þar sem gríðarlöng sigling er til og frá miðunum náði áhöfnin á Venusi HF ekki að vera nema rúmlega 28 daga á veiðum.

,,Það er alveg fimm sólarhringa sigling á miðin og reyndar tafði það okkur aðeins á útsiglingunni að rússneski sjóherinn var með heræfingar í Barentshafinu og fyrir vikið var siglingarleiðinni næst ströndinni, og reyndar allt út á 250 mílur frá landi á sumum stöðum, lokað fyrir almennri skipaumferð. Við urðum því að fara norðar og austar en ætlunin var,” segir Haraldur en þess má geta að lengst var farið langleiðina austur og norður undir Novaja Semjla eyjaklasann eða á um 72°N og 48°A. Þangað er um 1500 mílna sigling frá Reykjavík. 

Aflinn nánast eingöngu þorskur og ýsa

Venus HF var eina íslenska skipið í rússnesku lögsögunni en nokkru áður hafði Sigurbjörg ÓF verið þar á ferðinni og gert mjög góðan túr.

,,Aflinn var svo til aðallega þorskur og ýsa. Við vorum með um 570 tonn af þorski upp úr sjó og 113 tonn af ýsu. Aukaaflinn náði e.t.v. 10 tonnum og uppistaðan í þeim afla var steinbítur og hlýri. Fiskurinn var frekar smár og reynslan sýnir að það er hægt að fá skárri fisk á þessum slóðum fyrri hluta sumars,” segir Haraldur Árnason.

Nokkuð er eftir af bolfiskkvóta HB Granda í rússnesku lögsögunni og eftir á að koma í ljós hvernig staðið verður að nýtingu eftirstöðva kvótans. Að sögn Haraldar fer nú slakur veiðitími í hönd en ef að líkum lætur glæðist aflinn á nýjan leik þegar komið er fram í nóvember og desember.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir