FréttirSkrá á póstlista

20.08.2008

Markaðurinn hrópar á frystar síldarafurðir

,,Það er mjög mikil vöntun á frystum síldarafurðum á mörkuðum og framboðið er í engu samræmi við eftirspurnina. Í raun má segja að markaðurinn hrópi á frysta síld. Birgðir eru engar og framleiðslan í sumar hefur verið miklu minni en undanfarin ár,“ segir Jón Helgason, sölustjóri uppsjávarfisks og svæðisstjóri fyrir Austur-Evrópu hjá HB Granda, í samtali við heimasíðuna.

Stefnt er að því að hefja frystingu á norsk-íslensku síldinni hjá HB Granda á Vopnafirði í byrjun september og síðan verður íslenska sumargotssíldin tekin til frystingar þegar veiðarnar hefjast og ástand síldarinnar gefur tilefni til þess.

,,Norsk-íslenska síldin, sem veiðst hefur í sumar, hefur verið svo feit að hún hefur ekki hentað til vinnslu og frystingar í landi enn sem komið er. Þeir, sem eru með vinnsluskip, hafa getað fryst síldina um borð og það er aðallega sjófrystingin sem séð hefur um framboðið í sumar. Norðmenn hafa fryst eitthvað í landi en framboðið þaðan virðist vera mun minna en mörg undanfarin ár,“ segir Jón en að hans sögn er almenna reglan sú að ef fituprósentan er 18% eða hærri þá henti síldin sjaldnast til frystingar í landi.

HB Grandi hefur mest verið í framleiðslu á svokölluðum samflökum (butterfly) en einnig á roðlausum flökum. Nóg er eftir af síldarkvóta félagsins úr norsk-íslenska síldarstofninum en þegar þeim veiðum lýkur verður áherslan lögð á veiðar og vinnslu á íslensku sumargotssíldinni.

,,Venjan er sú að við byrjum á framleiðslu á samflökum og þegar sú vinnsla er komin vel í gang þá förum við einnig yfir í roðlausu flökin. Það gerist þegar fituprósenta síldarinnar er komin í um 13% eða þar um bil,“ segir Jón. 

Góð staða íslenskra framleiðenda


Helstu markaðir fyrir frystar síldarafurðir frá Íslandi eru í Rússlandi, Úkraínu og Póllandi en einnig hefur nokkuð magn verið selt til landa eins og Litháen og Vestur-Evrópulanda eins og Frakklands og Þýskalands. Jón segir verðið á afurðunum vera hátt um þessar mundir vegna vöntunar á mörkuðum en verðið geti hins vegar lækkað þegar framboðið eykst.

,,Staðan er að öllu leyti góð. Við eigum nægan kvóta, verðið er hátt og gengisþróunin hefur verið okkur hagstæð. Við seljum afurðirnar til Rússlands og Úkraínu í dollurum. Síldin, sem fer til Póllands, er oftast seld í norskum krónum en einnig í evrum. Allir þessir gjaldmiðlar hafa hækkað gagnvart íslensku krónunni frá í fyrra og sumir verulega. Salan til Frakklands og Þýskalands fer að sjálfsögðu fram í evrum og þótt þessir markaðir séu ekki stórir í samanburði við Austur-Evrópumarkaðina, þá munar um þá. Við vorum t.a.m. að selja hátt í 2.000 tonn af frystum síldarafurðum til Frakklands og Þýskalands á vertíðinni í fyrra og vonandi verður magnið ekki minna í ár,“ segir Jón Helgason.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir