FréttirSkrá á póstlista

15.08.2008

Þokkaleg karfa- og ufsaveiði

,,Aflabrögðin hafa verið þokkaleg en þau mættu samt alveg vera betri. Reyndar er þessi tími ársins jafnan leiðinlegur og það þarf mikið að hafa fyrir því að ná í nægilegt hráefni fyrir frystihúsið,“ sagði Ólafur Einarsson, skipstjóri á Ásbirni RE, er tíðindamaður heimasíðunnar náði tali af honum í dag.

Ásbjörn RE kom til hafnar í Reykjavík með um 140 tonna afla laust fyrir miðnætti sl. miðvikudag og skipið fer til veiða að nýju í kvöld venju samkvæmt.

Aðalveiðisvæði Ólafs og hans manna eru Fjöllin og Reykjaneshryggurinn en á þessum slóðum er það reynsla og þekking skipstjórnarmannanna á ísfisktogurum HB Granda sem gerir gæfumuninn. Ólafur segist alltaf vera að læra eitthvað nýtt. Veiðisvæðið sé ekki allra og það þoli ekki mörg skip. Mikill munur sé á aflabrögðunum á einstökum tímum og jafnvel milli veiðiferðanna sem taka um fimm sólarhringa, höfn í höfn.

,,Fyrir mér er þetta vinna sem ég hef ánægju af. Því miður hafa launin þó lítið hækkað mörg undanfarin ár og fyrir vikið er orðið erfiðara að manna þessi skip,“ segir Ólafur en þess má geta að Ásbjörn RE var um árabil aflahæsti ísfisktogari landsmanna og oftar en ekki var hann á toppnum þótt frystitogararnir væru taldir með. Aflaverðmætið endurspeglaði þó sjaldnast aflamagnið þar sem að karfinn og ufsinn, sem verið er að veiða, eru mun verðminni en t.a.m. þorskurinn. Aðrar tegundir en karfi og ufsi eru sjaldséðar í veiðiferðum Ásbjörns RE.

,,Það er helst að við fáum nokkur ýsukvikindi ef við förum upp á grunnin en fiskar af öðrum tegundum eru nánast teljandi á fingrum beggja handa,“ segir Ólafur Einarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir