FréttirSkrá á póstlista

14.08.2008

Framleiðsluverðmætið nálgast milljarðinn

Það sem af er sumri hafa verið framleidd 4.200 tonn af mjöli og 3.800 tonn af lýsi hjá fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði. Verðmæti þessara afurða er um 957 milljónir króna að sögn Garðars Svavarssonar, sölustjóra fiskmjöls og –lýsis.

Síldveiðar hafa gengið vel í sumar og hefur makríll verið áberandi í afla skipanna. Góður gangur hefur verið í vinnslunni hjá fiskmjölsverksmiðjunni á Vopnafirði og hefur hluta aflans verið landað annars staðar. Stærsti markaðurinn fyrir fiskmjöl og –lýsi er í Noregi þar sem afurðirnar eru notaðar til framleiðslu á fiskafóðri en góðir markaðir eru einnig fyrir þær í Grikklandi, Finnlandi og Danmörku.

Að sögn Garðars er nú búið að flytja utan 3.450 tonn af mjöli og 2.260 tonn af lýsi og fyrirhugaðar eru reglulegar útskipanir á næstu vikum. Hann segir stöðuna á mörkuðum fyrir afurðirnar vera góðar.

,,Lýsisverðið hefur hækkað mjög mikið milli ára. Það er bein fylgni á milli hækkunar á lýsi og olíu á heimsmarkaði og sem kunnugt er þá hafa orðið gríðarlega miklar olíuverðshækkanir á árinu. Jurtaolíur, sem eru í samkeppni við lýsið, eru í vaxandi mæli notaðar til framleiðslu á lífrænu eldsneyti (bio-fuel) og verðið hefur rokið upp,” segir Garðar en hann upplýsir að þróun mjölverðs hafi verið með öðrum hætti.

,,Mjölverðið var í sögulegu hámarki í fyrra og verðið í erlendri mynt er nú lægra en þá. Gengislækkun krónunnar hefur vegið þann mun upp og verðið er nú nálægt sögulegu hámarki í íslenskum krónum.” 

Hörð samkeppni við jurtaafurðir

Svo sem að framan greinir eru ýmiss konar jurtaafurðir í harðri samkeppni við fiskmjöl og –lýsi sem hráefni til fóðurgerðar. 

,,Framleiðsla á fiskafóðri hefur aukist um 5% á ári. Framleiðsla á fiskmjöli hefur aftur á móti dregist saman vegna kvótaniðurskurðar og því hafa fóðurframleiðendur gripið til þess ráðs að minnka hlutfall fiskmjöls í fóðrinu þegar mjölverðið er of hátt, að þeirra mati, og nota jurtaprótein í staðinn. Hlutfall fiskmjöls í fóðri er mjög breytilegt og hefur farið lægst í 23-24%. Þetta ræðst af framboði og verði á fiskmjöli á hverjum tíma. Hátt verð á sojamjöli síðustu mánuði hefur skilað sér í hærra hlutfalli fiskmjöls í fiskafóðri á nýjan leik. Sennilega er það um 28-30 % í dag,“ segir Garðar en hann getur þess að minna  hlutfall af fiskmjöli í fóðri hafi ekki haft eins mikil áhrif og ætla mætti. Stóraukin framleiðsla á fóðri og minni framleiðsla á fiskmjöli hafi dregið úr áhrifum þessa.

Garðar er ánægður með gæði afurðanna í sumar og þakkar það ekki síst góðu samspili veiða og vinnslu.

,,Yfir sumartímann hraðar hiti sjávar og áta niðurbroti hráefnisins. Með góðu samstarfi veiða og vinnslu hefur tekist að stjórna þessum þáttum. Gott hráefni gefur okkur kost á að framleiða hágæðaafurðir sem uppfylla allar kröfur viðskiptavina okkar,” segir Garðar Svavarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir