FréttirSkrá á póstlista

24.07.2008

Heræfingar töfðu för Venusar HF á miðin í Barentshafi

Frystitogarinn Venus HF er nú að veiðum langt inni í rússnesku lögsögunni í Barentshafi og að sögn Steindórs Sverrissonar, gæðastjóra HB Granda, hafa aflabrögðin verið frekar róleg. Aflinn er aðallega þorskur en einnig veiðist ýsa með þorskinum.

,,Ég heyrði í Haraldi Árnasyni skipstjóra í gær og hann sagði mér að Venus HF væri einn á veiðisvæðinu og það auðveldaði ekki leitina. Aflinn hefur mest farið upp í um 20 tonn á sólarhring og hefur heldur verið að glæðast eftir frekar rólega byrjun,” segir Steindór en þess má geta að Venus HF er mjög austarlega á veiðisvæðinu og tók það fimm og hálfan sólarhring að sigla þangað. Farið var í Barentshafið um leið og úthafskarfavertíðinni lauk.

,,Það tafði skipið reyndar að rússneski flotinn var með heræfingar í Barentshafi þegar Venus HF kom inn í rússnesku lögsöguna og þar sem að stórum svæðum var lokað fyrir almennri skipaumferð þá þurftu Haraldur og hans menn að taka stóran krók framhjá þessu bannsvæði,” segir Steindór. 

Rólegt á heimamiðum

Að sögn Steindórs hafa aflabrögð verið í tregari kantinum á heimamiðum upp á síðkastið nema hjá þeim skipum sem eiga nógan þorskkvóta. Aðrir þurfa að forðast þorskinn af fremsta megni og bera fyrir vikið minna úr býtum.

,,Ísfisktogararnir okkar eru aðallega á karfa- og ufsaveiðum á Fjallasvæðinu eða á sínum hefðbundnu heimamiðum. Frystitogararnir, að Venus HF undanskildum, hafa hins vegar verið að veiðum á Vestfjarðamiðum,” sagði Steindór Sverrisson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir