FréttirSkrá á póstlista

15.07.2008

Ingunn AK með 2.000 tonna afla til Vopnafjarðar

Ingunn AK kom til Vopnafjarðar í morgun með tæplega 2.000 tonna afla. Þar með hafa um 6.000 tonn borist til fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði á síldarvertíðinni en hluti þess magns er reyndar makríll sem veiðst hefur með síldinni.

Að sögn Jörgens Sverrissonar, verkstjóra í fiskmjölsverksmiðjunni og staðgengils verksmiðjustjóra, er reiknað með að Ingunn AK haldi til veiða að nýju nú um miðjan daginn. Jörgen segir að vinnslan hafi farið vel af stað, enda sé hráefnið ferskt og gott til bræðslu.

Faxi RE og Lundey NS eru nú að veiðum saman. Faxi RE var kominn með fullfermi í gær og fer skipið inn til löndunar um leið og Ingunn AK kemur aftur á miðin.

Með aflanum á síldarvertíðinni nú hafa verksmiðjunni á Vopnafirði alls borist ríflega 35 þúsund tonn af fiski til bræðslu á þessu ári en um 14.600 tonnum af loðnu var landað í vetur og um 14.700 tonnum af kolmunna var landað þar í vor.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir