FréttirSkrá á póstlista

14.07.2008

Ufsinn gefur sig til á nóttunni en karfinn á daginn

,,Þetta er búið að vera ágætis nudd hjá okkur. Helsti vandinn er sá að þorskurinn er mjög víða og í fyrri nótt urðum við að hífa og flýja undan honum. Við erum núna í Víkurálnum og þar ber ekki eins mikið á þorskinum,“ sagði Gunnar Einarsson, skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, í samtali við heimasíðuna er við náðum tali af honum fyrr í dag.

Gunnar segir að um helgina hafi verið reynt við ufsa á Halanum og hafi veiðarnar gengið ágætlega þar til að allt fylltist af þorski. Því var ekki um annað að ræða en hífa og flytja sig um set. Um sex til sjö aðrir togarar eru nú að veiðum í Víkurálnum og að sögn Gunnars veiðist ufsinn yfir nóttina á meðan karfi sé uppistaða aflans á daginn.

,,Það hefur verið frekar lítið um ufsa fyrir sunnan í sumar og aflinn er mun betri hér fyrir norðan. Við höfum verið að fá um 25 til 30 tonn á dag, ufsa og karfa, og það er ekki hægt annað en að vera ánægður með það,“ segir Gunnar en þess má geta að veiðiferðirnar eru oftast um fimm og hálfur sólarhringur. Farið er út á föstudagskvöldum og aflanum er landað á fimmtudögum.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir