FréttirSkrá á póstlista

04.07.2008

Lélegustu úthafskarfavertíðinni lokið

Lélegustu úthafskarfavertíð skipa HB Granda frá upphafi veiðanna er lokið. Fjögur skip stunduðu veiðarnar að þessu sinni og samkvæmt upplýsingum Birkis Hrannars Hjálmarssonar, rekstrarstjóra togara félagsins, er aflasamdrátturinn milli ára um 45%.

Að sögn Birkis fóru Örfirisey RE, Þerney RE, Helga María AK og Venus HF til úthafskarfaveiða í maí sl. Skipin komu í land fyrir sjómannadaginn en eftir hann fóru þrjú skipanna í úthafið að nýju. Örfirisey RE fór þá til veiða á heimamiðum. Um var að ræða prufutúr þar sem reyndar voru veiðar með tveimur trollum samtímis.

,,Úthafskarfavertíðin nú var ákaflega rýr. Heildaraflinn var á milli 3.100 og 3.200 tonn en til samanburðar má nefna að í fyrra var afli skipanna 5.770 tonn,“ segir Birkir en hann upplýsir að fimmti frystitogari félagsins, Höfrungur III AK, hafi það sem af er árinu verið á grálúðuveiðum og hafi þær veiðar gengið þokkalega.

,,Útgerð frystitogararnna gengur orðið út á það að flýja þorskinn. Við gerðum reyndar ráðstafanir til að eiga töluvert af þorskkvótanum eftir fyrir sumarið en þrátt fyrir það er okkur vandi á höndum vegna þess hve mikið er af þorski þar sem reynt er að veiða aðrar tegundir,“ segir Birkir en að hans sögn eru það þorskurinn og hátt olíuverð sem eru helsti vandi togaraútgerðarinnar um þessar mundir. Ekki dugi þó að væla yfir því. Þorskkvótinn hljóti að aukast á komandi árum og vonandi lækki olíuverðið frá því sem nú er.

Veiðar ísfisktogaranna Ásbjörns RE, Sturlaugs H. Böðvarssonar AK og Ottó N. Þorlákssonar RE ganga sinn vana gang, að sögn Birkis, utan hvað ufsaveiðin hefur verið treg.

,,Það er mikil áta á svæðinu og ufsinn heldur sig upp í sjó. Hann hlýtur þó að fara að gefa færi á sér áður en langt um líður,“ segir Birkir Hrannar Hjálmarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir