FréttirSkrá á póstlista

03.07.2008

Fyrsti síldarfarmurinn til Vopnafjarðar

Fiskmjölsverksmiðja HB Granda á Vopnafirði tók við fyrsta síldarfarminum í gærmorgun er Ingunn AK kom þangað með um 1100 tonna farm. Var það afli Ingunnar AK og Faxa RE en skipin hafa verið saman á síldveiðum með eitt troll. Sveinbjörn Sigmundsson verksmiðjustjóri á Vopnafirði segir síldina vera býsna góða þótt í henni hafi verið átuvottur.

,,Síldin er feitari en ég átti von á. Við sendum sýni til fitumælinga hjá Matís nú í morgun og væntanlega fáum við niðurstöður mælinganna fyrir helgi,“ segir Sveinbjörn en hann upplýsir að um 35% farmsins hafi verið makríll.

,,Makrílinn er stór og mjöl vel á sig kominn. Mín tilfinning er sú að ef hægt er að halda makrílnum aðskildum frá síldinni og kæla hann vel niður, þá væri hægt að nýta þennan afla í frystingu,“ segir Sveinbjörn en hann áætlar að lokið verði við að bræða aflann í nótt en afköstin í bræðslunni eru um 650-700 tonn á sólarhring.

Ingunn AK var komin á miðin að nýju í nótt en að sögn Sveinbjörns byrjuðu skipin að toga í Rósagarðinum. Þangað er um 140 sjómílna sigling frá Vopnafirði. Bræla var á miðunum í gærkvöldi og fram eftir nóttu en í morgun gekk veðrið niður og er það nú ágætt.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir