FréttirSkrá á póstlista

27.06.2008

Ingunn AK og Faxi RE farin til síldveiða

Tvö skip HB Granda eru farin til síldveiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ingunn AK hélt frá Akranesi sl. nótt og í morgun lét Faxi RE úr höfn í Reykjavík. Um sólarhring tekur að sigla á miðin en síðustu dagana hafa skip verið að síldveiðum innan íslenskrar lögsögu fyrir austan land.

,,Það eru góðar fréttir að síldin skuli vera farin að veiðast innan lögsögunnar. Menn urðu fyrst varir við síld í veiðanlegu magni fyrir austan landið sl. sunnudag og eru skipin nú að veiðum í Hvalbakshallinu. Það munar miklu á að geta stundað veiðarnar þar og svo nærri landinu. Þegar síldveiðarnar hófust voru skipin að veiðum við Jan Mayen en þangað er 250 sjómílna lengri sigling frá Vopnafirði en í Hvalbakshallið. Það munar tveimur sólarhringum á siglingartímanum til og frá þessum miðum. Olíusparnaðurinn er því verulegur,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, í samtali við tíðindamann heimasíðunnar. Að sögn Vilhjálms er það ekki bara síld, sem veiðst hefur austan við landið, því hluti aflans er makríll.

Kvóti HB Granda á norsk-íslenskri síld er um 36 þúsund tonn á þessu ári. Þrjú skipa félagsins verða á síldveiðum á þessu ári en auk Ingunnar AK og Faxa RE mun Lundey NS stunda veiðarnar. Reiknað er með því að skipið fari til veiða um miðja næstu viku.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir