FréttirSkrá á póstlista

02.06.2008

Vel heppnuð árshátíð HB Granda

Árshátíð HB Granda var haldin í Gullhömrum sl. laugardagskvöld og þótti hún takast með miklum ágætum. Að þessu sinni voru skemmtiatriðin heimatilbúin og kepptu einstakar deildir félagsins um verðlaun fyrir besta atriðið. Sigurvegarar að þessu sinni komu úr landvinnslu félagsins, sem tróðu upp með frábært söng- og dansatriði.

Til þess að auka enn á listrænt gildi atriðanna hafði Felix Bergsson leikari verið fenginn til að aðstoða starfsfólkið við undirbúning og æfingar. Fjármáladeildin reið á vaðið með sitt skemmtiatriði en í kjölfarið fylgdu útgerðin, fiskeldisdeildin, uppsjávarsviðið, markaðsdeildin og síðast en ekki síst landvinnslan, sem fór með sigur af hólmi.

Af öðrum atriðum á árshátíðinni má nefna að HB Grandi heiðraði þá starfsmenn, sem unnið hafa í 25 ár eða lengur hjá félaginu eða forverum þess.

Veislustjóri var Gísli Einarsson, fréttamaðurinn geðþekki, og hljómsveitin Buff lék fyrir dansi fram á nótt.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir