FréttirSkrá á póstlista

30.05.2008

Gæðin hafa alltaf skipt mig meira máli en magnið

Steindór Sverrisson, gæðastjóri HB Granda, er alinn upp við sjómennsku frá blautu barnsbeini. Faðir hans var skipstjóri og stýrimaður á fiskiskipum og Steindór var ekki nema 13 ára gamall þegar hann réð sig fyrst í skipsrúm. Sjómennskuferillinn stóð yfir í rúma þrjá áratugi en örlögin höguðu því þannig að leið Steindórs lá í land af heilsufarsástæðum haustið 2006. Í þessu viðtali er rætt við Steindór um sjómennskuferilinn og það starf sem hann gegnir nú hjá HB Granda.

Steindór er fæddur á Akureyri árið 1961. Árið 1973 fluttist hann til Vopnafjarðar með fjölskyldu sinni, þá 12 ára gamall. Sverrir Guðlaugsson, faðir hans, var stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Brettingi NS þannig að Steindór átti ekki langt að sækja áhugann á sjómennskunni.

,,Ég ætlaði reyndar alltaf að verða bóndi enda var ég í sveit á Munkaþverá í Eyjafirði á hverju sumri fram til þess tíma að við fluttumst til Vopnafjarðar,” segir Steindór en hann var ekki nema rétt liðlega 13 ára gamall er hann fékk sumarvinnu á Guðborgu NS 36 sem var tíu tonna bátur í eigu Þórarins Sigurðssonar eða Tóta í Ási eins og hann var kallaður. Báturinn var gerður út á grásleppu á vorin og fyrri hluta sumars en síðan var farið á þorskanet og hákarlalínu.

,,Tveimur árum síðar fékk ég svo pláss á Ritu NS 13. Það var einnig sumarvinna með skóla. Báturinn var 17 tonna eikarbátur, frambyggður og ákaflega fallegur og góður bátur. Útgerðarmaðurinn var Guðmundur Ragnarsson, ákaflega vandaður maður sem gott var að vinna hjá,” segir Steindór en þess má geta að Guðmundur þessi fórst í róðri á báti sínum í fyrra.

Auk þess að stunda sjó meðfram skólanum þá vann Steindór einnig í saltfiskverkun hjá Tanga á Vopnafirði en haustið 1978 má segja að ferill hans sem atvinnusjómaður hefjist fyrir alvöru.

,,Ég fékk þá pláss á Brettingi NS sem háseti og þá má eiginlega segja að draumurinn um sveitamennskuna hafi endanlega gufað upp. Ég fór reyndar aftur á Ritu NS vorið 1979 en það vor var ákaflega merkilegt fyrir þær sakir að tíðarfarið var afleitt norðanlands og mikill hafís. Það fór tvívegis allt á kaf í snjó á Vopnafirði í maí þetta ár og við urðum að flýja með bátinn suður til Þorlákshafnar vegna hafíssins. Við vorum á vertíð í Þorlákshöfn og fiskuðum gríðarlega vel.”

Tryggvi vildi ráða hvern hann hefði með sér í brúnni:

Haustið 1979 fór Steindór í Stýrimannaskólann þaðan sem hann útskrifaðist vorið 1982 úr farmannadeild.

,,Ég fór þó aldrei á fraktskip. Vorið eftir fyrsta árið í skólanum fór ég sem 1. stýrimaður á Bretting NS en Tryggvi Gunnarsson var þá skipstjóri á Brettingi og pabbi var þar afleysingaskipstjóri. Það hefði ekki gengið í dag að strákur færi sem stýrimaður á togara eftir eitt ár í Stýrimannaskólanum en Tryggvi sagðist einfaldlega vilja ráða því hverja hann hefði með sér í brúnni. Hann fékk sínu jafnan framgengt,” segir Steindór en hann var síðan 1. og 2. stýrimaður á Brettingi næstu árin. Þegar karl faðir hans tók við skipstjórn á Eyvindi vopna NS árið 1984 færðist sonurinn upp í goggunarröðinni og varð þá 1. stýrimaður. Fyrsta túrinn sem skipstjóri fór Steindór ári síðar.

Árið 1987 var ákveðið að endurnýja hina svokölluðu Japanstogara en Brettingur NS var einn af þeim. Verkið var unnið í Póllandi og þangað fór Steindór, líkt og fleiri skipstjórnarmenn, til að fylgjast með framvindu verksins fyrir hönd útgerðarfélagsins.

,,Upphaflega var gert ráð fyrir því að þetta verk ætti að taka þrjá mánuði en þegar upp var staðið voru þeir orðnir tíu. Í Póllandi kynntist ég fyrst Rúnari Þór Stefánssyni sem nú er útgerðarstjóri HB Granda hf. Hann er menntaður sem skipatæknifræðingur og var þarna sem eftirlitsmaður fyrir Ráðgarð en það fyrirtæki hafði verið fengið til að hafa eftirlit með breytingunum á togurunum,” segir Steindór en þess má geta að settur var búnaður til heilfrystingar í Bretting NS í Póllandi og átti sá búnaður eftir að skila útgerð og áhöfn miklum ávinningi. Þeim, sem þetta ritar, er minnisstætt að á þessum árum fengu menn þorskverð fyrir sjófrystan karfa. Tangi átti reyndar ekki mikinn karfakvóta en með því að skipta á þorski í staðinn fyrir karfa og grálúðu var hægt að auka aflaverðmæti skipsins verulega því í þá daga fengust þrjú tonn af karfa fyrir hvert tonn af þorski í kvótaskiptum. Síðar var reyndar sett flakalína í Bretting NS og var hún aðallega notuð í veiðiferðum sem farnar voru í Smuguna í Barentshafi.

Var svo gott sem búinn að fá starf sem gæðastjóri hjá ÍS:

Steindór hætti á Brettingi NS árið 1998 þegar hann og fjölskylda hans ákváðu að flytjast suður.

,,Ég hafði ákveðið að fara að vinna í landi og var nokkurn veginn búinn að fá starf hjá Íslenskum sjávarafurðum sem gæðastjóri. Málin atvikuðust þó þannig að ég ákvað að fara nokkra túra á Haraldi Kristjánssyni HF sem 2. stýrimaður með Eiríki Ragnarssyni og það var e.t.v. eins gott því skömmu eftir að við fluttum suður þá sameinuðust ÍS og SÍF undir merkjum SÍF. Þar með voru forsendurnar fyrir ráðningunni sem gæðastjóri foknar út í veður og vind og hefði ég verið kominn til starfa hjá ÍS þá hefði ég örugglega fengið uppsagnarbréf fljótlega eftir sameininguna,” segir Steindór.

Þessi atburðarás varð þó ekki til að halda Steindóri lengi frá gæðamálunum sem hann hafði fengið brennandi áhuga á. Árið 1999 var Haraldur Kristjánsson HF seldur til Haraldar Böðvarssonar á Akranesi og fékk skipið þá nafnið Helga María AK. Áhöfnin fylgdi með í kaupunum.

,,Fyrst eftir kaup HB á skipinu þá voru sölumálin á sjófrystu afurðunum í höndum SH en fljótlega stofnaði félagið sína eigin sölu- og markaðsdeild sem Sturlaugur Haraldsson veitti forstöðu. Afurðirnar voru seldar undir vörumerkinu ,,Dolphin Brand” og þótt magnið hafi verið lítið til að byrja með þá vatt þetta fljótlega upp á sig og umsvifin jukust verulega. Allar sjófrystar afurðir Helgu Maríu AK og Höfrungs III AK voru seldar undir merkjum ,,Dolphin Brand” og ekki leið á löngu þar til það varð eitt hinna stærri í Bretlandi hvað varðar sölu á ýsuafurðum. Ég, líkt og fleiri skipverjar, fann fljótlega að það var verulegur munur á því að hafa sölu og markaðssetningu afurðanna innan fyrirtækisins. Í stað þess að fá upplýsingar seint og illa um það sem betur mátti fara og hrós fyrir það sem vel var gert, þá varð sú breyting að við fengum viðbrögðin svo að segja strax eftir að afurðirnar voru komnar til viðtakenda. Þetta leiddi til þess að menn urðu meira meðvitaðir um nauðsyn þess að setja meðferð aflans og gæðin í fyrirrúm. Metnaður áhafna frystitogaranna jókst að sama skapi og menn lögðu sig alla fram. Um borð í skipunum voru það vinnslustjórarnir og vaktformennirnir sem sáu um að passa upp á að hlutirnir væru gerðir á réttan hátt. Það skiptir sköpum að veiða ekki of mikið í hverju holi og sömuleiðis að ekki sé togað of lengi. Þá er ekki síður mikilvægt að losa móttökuna sem fyrst, blóðga eða hausa fiskinn og kæla aflann. Allt eru þetta lykilatriði að gæðum afurðanna. Menn bæta ekki blóðsprunginn fisk um borð í skipunum eða í vinnslunni í landi eftir á,” segir Steindór en hann segist hafa verið svo lánsamur að hafa verið á skipum þar sem meðferð og gæði aflans hafi skipt meira máli en magnið. ,,Ég hef oft sagt að ef úthlutun kvótans hefði á sínum tíma ráðist af stærð fisksins og gæðum aflans þá hefði Brettingur NS fengið mun meiri kvóta en raunin varð því Tryggvi Gunnarsson sigldi alltaf burt úr smáfiski og hugsaði mikið um að fiskurinn væri sem bestur fyrir vinnsluna. Sami hugsunarháttur var hjá Guðmundi Ragnarsyni á Ritu NS. Meðferð aflans og þrifnaður voru hans ær og kýr.”

Valið stóð um að fara í land eða eyðileggja olnbogann:

Haustið 2006 var komið að tímamótum í lífi Steindórs. 30 árum áður hafði hann lent í slysi sem smám saman leiddi til þess að hann varð að hætta sjómennsku.

,,Slysið varð haustið 1976. Ég var þá að vinna í saltfiski hjá Tanga og datt á hálu gólfinu með þeim afleiðingum að ég brotnaði mjög illa á olnboga. Ég varð þó þokkalega vinnufær eftir um tvo mánuði og byrjaði strax að vinna því ekki var slysabótunum fyrir að fara. Ef maður gat unnið þá vann maður. Afleiðingar slyssins komu hins vegar ekki almennilega fram fyrr en síðar og þetta ágerðist smám saman og haustið 2006 tjáðu læknar mér að töluverð skemmd væri komin í olnbogann og ekkert vit væri í að halda áfram á sjónum. Kostirnir voru tveir. Halda áfram og eyðileggja olnbogann alveg eða fara í land og í heppilegri vinnu. Ég vissi ekkert hvað ég átti að taka mér fyrir hendur í landi en ákvað samt að velja þann kost að hætta til sjós og fara í land. Ég var búinn að prófa að vera í smíðavinnu, sem ég hafði áhuga á, en komst að því að hún hentaði mér og olnboganum ekki frekar en sjómennskan. Ég hafði reyndar rætt um það við Sturlaug Haraldsson fyrir einum fimm árum síðan að fara í sambærilegt starf og það sem ég sinni í dag en það flækti málin þá að HB fór fljótlega eftir það inn í Brim hf. með ÚA og Skagstrendingi. Síðar keypti Grandi hf. svo HB og til varð HB Grandi eins og við þekkjum fyrirtækið í dag,” segir Steindór en þegar hann fékk úrskurð læknanna haustið 2006 þá tók hann málið upp að nýju við Sturlaug sem þá var sölustjóri HB Granda.

,,Sturlaugi leist sem fyrr vel á hugmyndina. Þá um haustið tók ég málið upp við Rúnar Þór útgerðarstjóra og spurði hann að því hvort það væri ekki eitthvað að gera fyrir mig í landi. Hann tjáði mér að það væru s.s. engin laus störf en vildi vita hvað ég væri með í huga. Ég sagðist hafa áhuga á gæðamálunum og spurði hvort fyrirtækið vantaði ekki mann sem gæti tekið þennan málaflokk að sér og verið tengiliður á milli markaðsdeildarinnar og sjófrystingarinnar um borð í frystiskipunum. Rúnari Þór leist vel á hugmyndina og til að gera langa sögu stutta þá hóf ég störf í nýju starfi sem gæðastjóri hjá HB Granda 12. febrúar í fyrra.”

Heimsóknir til kaupenda ytra skila árangri:

Steindór segir að gæðamál hafi reyndar alltaf verið tekin föstum tökum hjá HB Granda og m.a. hafi Sturlaugur beitt sér fyrir því að áhöfn eins frystiskips var boðið einu sinni á ári í heimsókn til helstu viðskiptavina fyrirtækisins í Bretlandi til að kynna sér viðhorf kaupendanna. Í þeim ferðum hafi verið farið í heimsóknir á veitingastaði, sem hafa fisk frá HB Granda á matseðlum sínum, og þar hafi skipverjarnir fengið upplýsingar um mat kaupenda á afurðunum.

,,Þetta hefur virkað mjög vel. Með þessu móti hefur okkur tekist betur að ná tökum á gæðamálunum. Við fáum ábendingar frá kaupendunum og mín reynsla er sú að persónuleg samskipti sem þessi hafi orðið til þess að menn átta sig betur á þörfum markaðarins. Þetta hefur hjálpað okkur til að ná enn betri tökum á gæðamálunum en ella hefði orðið,” segir Steindór en hann upplýsir að starf sitt felist aðallega í því að gera úttektir á aflanum eftir að hann kemur í land og koma upplýsingum um ástand og gæði afurðanna á framfæri við skipstjóra og vinnslustjóra skipanna. Þá séu samskipti við Fiskistofu og skoðunarstofuna Sýni orðin nokkuð fyrirferðamikill hluti starfsins.

,,Ég reyni að koma alltaf um borð í skipin fyrir hverja brottför og hitta sem flesta skipverja og upplýsa þá um það sem vel hefur verið gert og hvað betur megi fara. Þá hef ég farið nokkrum sinnum á ári í nokkra daga og upp í viku í senn með skipunum,” segir Steindór en spurningu um það hvort til sé einhver einfaldur mælikvarði á gæði fiskafurða svarar hann á þann hátt að svo sé ekki. ,,Þumalfingurreglan er hins vegar sú að ef menn eru tilbúnir til að hafa viðkomandi afurðir í matinn heima hjá sér, þá séu gæðin í lagi.”

Það á ekki að hrófla á sjómannadeginum:

Sjómannadagurinn er nk. sunnudag og það er því við hæfi að spyrja Steindór að því hvort þýðing þessa dags hafi breyst í hans augum við það að fara í land.

,,Í mínum huga er sjómannadagurinn alltaf annar fasti punkturinn í tilverunni hvað varðar samverustundir með fjölskyldunni. Jólin eru hinn fasti punkturinn. Þetta eru þau tvö tímabil á árinu sem menn geta verið vissir um að vera í landi og treyst því að vera með fjölskyldunni. Mín skoðun er sú að það eigi eindregið að halda í sjómannadaginn í núverandi horfi. Ég sé engan tilgang með að breyta nokkru þar um. Við færum ekki þjóðhátíðardaginn og hið sama á að gilda um sjómannadaginn.”

-- Saknar þú sjómennskunnar?

,,Við getum orðað það þannig að ég sakna þess góða frítíma sem ég hafði á milli einstakra veiðiferða sem sjómaður á frystitogara. Það er sú breyting sem ég hef orðið áþreifanlegast var við eftir að ég fór í land og eins eru tekjurnar ekki þær sömu. Hvað mig varðar þá var þetta hins vegar orðið ágætt og ég er svo heppinn að ég vinn nú við það sem ég þykist hafa vit á,” segir Steindór Sverrisson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir