FréttirSkrá á póstlista

23.05.2008

Um 40 skip á úthafskarfaveiðum

Veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshryggnum hafa staðið í nokkurn tíma og hafa aflabrögðin verið frekar treg að sögn Rúnars Þórs Stefánssonar, útgerðarstjóra HB Granda. Fjögur skip HB Granda eru á miðunum en um 40 skip frá ýmsum þjóðlöndum stunda veiðarnar um þessar mundir.


,,Þetta er búið að vera frekar rólegt. Aflinn er um 1 til 1,5 tonn á togtímann sem þykir ekki mikið,“ segir Rúnar Þór en að hans sögn eru skipin öll að veiðum í nágrenni 200 mílna lögsögumarkanna. Þar er því stiginn ,,línudans“ líkt og mörg undanfarin ár en erlendu skipin mega ekki fara inn í íslensku lögsöguna til veiða.


Skip HB Granda, sem nú taka þátt í úthafskarfaveiðunum, eru Helga María AK, Venus HF, Þerney RE og Örfirisey RE. Alls eru 11 íslensk skip farin til úthafskarfaveiða.

 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir